139. löggjafarþing — 54. fundur,  18. des. 2010.

raforkulög.

204. mál
[12:07]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að gera sér ljóst að skipulagslega er Orkuveita Reykjavíkur klár í þann fjárhagslega aðskilnað sem er forsenda þessa verknaðar. Það er líka ljóst að samkvæmt þeirri Evróputilskipun sem frumvarpið er byggt á þarf 100 þúsund tengingar til að nauðsynlegt sé að fara í aðgreiningu samkeppnis- og sérleyfisstarfsemi. Orkuveita Reykjavíkur er því eina fyrirtækið á Íslandi sem hefði einhvern tíma átt að vera neytt til slíks aðskilnaðar. Engu að síður er það síðasta fyrirtækið á þessum samkeppnismarkaði sem á að gera það. Hér leggur meiri hlutinn til að eina fyrirtækið sem á að fara í slíkan aðskilnað skuli fá frest í eitt ár enn.

Minni hlutinn segir nei, en við ættum hins vegar að velta því fyrir okkur hvort við innleiðum ekki oft og tíðum rangar Evróputilskipanir, tilskipanir sem ekki henta á íslenskum markaði. (BJJ: Heyr, heyr.)