139. löggjafarþing — 54. fundur,  18. des. 2010.

brunavarnir.

79. mál
[12:23]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við þessa atkvæðagreiðslu færi ég umhverfisnefnd mínar dýpstu þakkir, sérstaklega formanni hennar, hv. þm. Merði Árnasyni, fyrir að stýra nefndinni í gegnum vinnu við frumvarpið um brunamál og jafnframt mannvirkjafrumvarpið með einkar farsælum hætti. Margt var fært til betri vegar í úrvinnslu nefndarinnar og þar tókst sátt á lokasprettinum sem felur í sér að umhverfisráðherra og samgönguráðherra (Gripið fram í.) leiði álitamál til lykta á nýju ári og ég heiti því fyrir mína parta að sú vinna verði sett í forgang.

Lagasetning um brunavarnir er hluti af heildarlöggjöf um skipulag og mannvirki sem Alþingi afgreiðir nú sem lög á árinu 2010 en umhverfisráðherrar fjögurra flokka hafa flutt málið í þinginu. Þáverandi hæstv. umhverfisráðherra, Siv Friðleifsdóttir, hóf vinnu við endurskoðun laganna árið 2002, sem minnir okkur á að pólitík getur oft verið langhlaup.

Í tengslum við þessa nýju löggjöf verða settar nýjar reglugerðir á vordögum og þá verður loks (Forseti hringir.) kominn sá heildstæði umbúnaður og regluverk um þennan málaflokk sem vera ber.