139. löggjafarþing — 54. fundur,  18. des. 2010.

brunavarnir.

79. mál
[12:27]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég kem upp til að fagna þessum tímamótum. Málið hefur tekið ótrúlega langan tíma. Það hefur verið mjög þungt. Þetta hefur verið mjög erfið fæðing, ef svo má að orði komast, miklar fæðingarhríðir. Fæðingin er eiginlega ekki búin enn af því að ágreiningi er skotið á frest til 15. maí. Tveir hæstv. ráðherrar eiga að skoða ákveðin mál enn betur þannig að málið er ekki búið en það er þó nánast komið á endasprettinn. Alla vega er þingið að afgreiða það núna og ég vil óska öllum sem komið hafa að því til hamingju. Ég vil sérstaklega draga fram embættismenn í umhverfisráðuneytinu sem fylgt hafa málinu eftir í öll þessi ár, átta ár, og tel að við séum núna að stíga gríðarlega mikið framfaraskref. Sú er hér stendur hóf þessa vegferð en grunaði alls ekki að þetta yrði átta ára fæðing þannig að ég er mjög ánægð með að niðurstaða skuli nást núna.