139. löggjafarþing — 54. fundur,  18. des. 2010.

Evrópska efnahagssvæðið.

61. mál
[12:35]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Fram kemur í fylgiskjali með frumvarpinu að Íslendingar hafa alltaf lagt á það ríka áherslu að ekki er um lagalegar skuldbindingar að ræða gagnvart þessum samningi.

Með frumvarpi þessu er lagt til að þessar greiðslur verði lögfestar fyrir okkur Íslendinga með því að bæta þessu ákvæði inn í EES-samninginn. Því er ég algerlega ósammála því að þegar þjóðir ganga til samninga á að vera um samning að ræða en ekki lagalegar skuldbindingar, en við þekkjum það frá Icesave-þráhyggju ríkisstjórnarinnar.

Varðandi að aðilar innan EFTA hafi verið svo góðir við okkur að leyfa okkur að greiða minna í þetta sinn vil ég benda á að framlög einstakra ríkja til þessa sjóðs miðast við hlutfall viðkomandi ríkis af samanlagðri vergri landsframleiðslu. Viðmiðunarárið er tveimur árum fyrr þannig að hér er ekki um neinn vinargreiða að ræða. Þetta er staðreyndin sem stóð í samningnum sjálfum, (Forseti hringir.) við leggjum minna til en Noregur og Liechtenstein vegna þess að hér varð efnahagshrun 2008 (Forseti hringir.) en ekki vegna velvilja þessara ríkja í okkar garð.