139. löggjafarþing — 54. fundur,  18. des. 2010.

fjarskipti.

394. mál
[12:48]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég kem upp til að lýsa skoðun okkar framsóknarmanna, að við munum ekki standa í vegi fyrir því að frumvarpið nái fram að ganga. Hins vegar vil ég líka segja að við höfum rætt síðustu daga um þau vinnubrögð sem þingið hefur ástundað og þessi ríkisstjórn hefur sannarlega ekki breytt, að keyra mál í gegn með mjög stuttum fyrirvara og litlum undirbúningi. Þetta mál er kannski skýrasta dæmið um það því að á lokasprettinum var hreinlega svo komið að ráðuneytið og sú nefnd sem unnið hafði að málinu voru ekki búin að undirbúa málið á nokkurn hátt og átti jafnvel að fara að taka það úr nefnd. En niðurstaðan er ágæt. Sett er inn ákvæði þannig að nefndin sjálf eða hluti nefndarinnar ber fram tillögu um að hægt verði að úthluta tíðnisviðum á næsta ári og er það vel. En ég held að við ættum að láta þetta okkur að kenningu verða, svona vinnum við ekki og næsta ár tökum við upp önnur vinnubrögð.