139. löggjafarþing — 59. fundur,  17. jan. 2011.

lögreglulög.

405. mál
[17:46]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka til máls um þetta litla frumvarp sem hér liggur fyrir en af því að hv. þm. Mörður Árnason fór fram á að flutningsmenn útskýrðu af hverju þeir hefðu gerst flutningsmenn að þessu frumvarpi þá stend ég hér.

Það er skemmst frá því að segja, sem ég hélt að flestir vissu, að við lifum ekki í fullkomnum heimi þar sem allt gengur slétt og fellt fyrir sig, allir eru glaðir og ánægðir allan tímann og öllum málum er lokið á besta veg þannig að stjórnmálamenn eru hylltir með blómum þegar þeir ganga til og frá vinnu. Við lifum í heimi þar sem fólk ber bumbur fyrir utan Alþingishúsið og ef ekki væri lögreglan til að standa vörð um það væri ekki fundarfært.

Það mál sem hér liggur fyrir er ekki stórt mál í sjálfu sér. Það snýst að því er mér finnst fyrst og fremst um 20 ungmenni sem hafa hug á að stunda nám við Lögregluskólann á næstunni og að tryggja möguleika þeirra til þess náms.

Eins og fram kemur í greinargerð þessa frumvarps hefur verið boðað og á að koma fram stórt frumvarp um lögreglulög í heild sinni þar sem tekið verður á málum Lögregluskólans og þeirra sem þar stunda nám. Það frumvarp, sem mín vegna hefði betur komið fram á haustþingi eða á þinginu þar áður eða þar áður eða þar áður, hefur bara ekki séð dagsins ljós, er ekki tilbúið til flutnings. Því hefur skapast ákveðið vandamál og það vandamál snertir bæði þau 20 ungmenni sem vilja sækja nám í Lögregluskólanum og það snertir í víðara samhengi lögregluna til lengri tíma, að hún eigi aðgang að menntuðu starfsfólki sem skiptir afskaplega miklu máli vegna þess veigamikla hlutverks sem lögreglan gegnir í okkar samfélagi.

Ég ætla ekki að fara út í að svara hinum fjölmörgu formlegum spurningum hv. þm. Marðar Árnasonar, ekki vegna þess að ég telji endilega að þær spurningar eigi ekki rétt á sér heldur sumpart vegna þess að ég kann ekki svör við þeim öllum og sumpart vegna þess að ég held að ekki sé tilefni til að spyrja þeirra á þeim vettvangi sem við erum nú við 1. umr. þessa máls.

Svarið við því af hverju sá sem hér stendur skuli hafa gerst meðflutningsmaður á þessu frumvarpi er að finna í greinargerðinni þar sem stendur einfaldlega, með leyfi forseta:

„Nefndin telur rétt að flytja tillögu um breytingu á þessu ákvæði sérstaklega þar sem slík breyting er forsenda þess að unnt verði að taka inn nýnema á næsta ári.“

Auðvitað langar mig, eins og ég held flesta sem taka þátt í stjórnmálum, til að leggja fram stórkostleg frumvörp, vel rökstudd og þaulhugsuð um stórkostlegar framfarir og lífsgæðabreytingar til handa öllum almenningi. En í þessu starfi er líka fólgið að leysa minni vandamál og hluti af því að leysa vandamál er að geta brugðist við fljótt og leyst þau fljótt og á ásættanlegan máta. Heildarvandamálið, ef þarna er um vandamál að ræða, felst í því að heildarlöggjöf um lögregluna er ekki fram komin, er ekki fullbúin sennilega vegna þess að menn hafa mikinn metnað til að vinna þá löggjöf svo vel að á henni verði engir hnökrar. Í ljósi þess að sú löggjöf er ekki fram komin er augljóst mál að ákveðnir endar eru lausir, það eru ákveðin vandamál, það eru ákveðnar flækjur sem þarf að greiða úr. Þetta frumvarp er leið til að greiða úr þeirri flækju, ekki varanlega heldur í bili.

Það að þetta mál skuli ekki vera stjórnarfrumvarp er í raun og veru, eins og hv. þm. Mörður Árnason hefur bent á, ekki til fyrirmyndar. Ég er fullkomlega sammála því. Flækjur eru yfirleitt ekki til fyrirmyndar en hjá þeim verður ekki komist endrum og sinnum. Fyrst er þá að greiða úr flækjunni, það finnst mér eðlileg forgangsröð, og síðan, ef áhugi er á, að finna út hvernig flækjan er til komin og hver eða hverjir bera ábyrgð á henni, ekki til að koma af stað einhverjum hefndaraðgerðum eða þyrla upp pólitísku moldviðri heldur til að fyrirbyggja að slíkar flækjur komi upp aftur á sama stað af svipuðu tilefni.

Það er deginum ljósara að það stendur upp á dómsmálaráðuneytið að finna lausn á þessu máli til lengri tíma og leggja fram frumvarp, hnökralaust, sem fyrirbyggir sem flestar flækjur varðandi lögreglumál í einhvern tíma fram undan. Ég vona að sú vinna, sem mér skilst að standi yfir núna, takist vel en hversu gott sem frumvarpið um lögreglulög verður þá er ég sannfærður um að það mun leiða af sér lausnir á ýmsum sviðum en það mun líka skapa flækjur á einhverjum öðrum sviðum sem þarf þá að bregðast við og leysa. Og það er sem sagt til að leysa, greiða úr lítilli flækju sem þetta litla frumvarp er lagt fram núna.

Hins vegar finnst mér ágætlega til fundið hjá hv. þm. Merði Árnasyni að vekja máls á þessu vegna þess að út frá þessu máli má skoða störf þingsins í víðara samhengi. Eins og ég hef sagt er ég algerlega sammála því að um það efni sem hér er fjallað ætti að vera stjórnarfrumvarp. Ég hef líka rakið að slíkt stjórnarfrumvarp er ekki til og þetta er skammtímalausn til að bjarga, forða því að ákveðin stífla verði í starfsemi Lögregluskólans og með ásættanlegum hætti.

Ég hafði bæði gagn og ánægju af því að hlusta á málflutning hv. þm. Marðar Árnasonar, sem er félagi minn í allsherjarnefnd, um þetta samspil löggjafarvalds og framkvæmdarvalds og ég held að ég sé sammála honum um flesta þætti þess máls. Ég held líka að ríkja verði ákveðin samstaða, samhjálp og skilningur milli þessara greina ríkisvaldsins, að ef annar hvor aðilinn, framkvæmdarvald eða löggjafarvald, missir niður um sig brækurnar þá sé frekar ástæða til að hjálpa viðkomandi til að girða sig en að reyna að slíta niður um hann.

Ég vænti þess að þetta litla frumvarp nái fram að ganga án mikilla tafa, ekki síst með tilliti til þess að ég held að það sé mjög mikilvægt að Lögregluskólinn geti haldið sínu ágæta starfi áfram. Ég vænti þess því að málið fái fljóta og góða afgreiðslu.