139. löggjafarþing — 60. fundur,  18. jan. 2011.

störf þingsins.

[14:14]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Hv. þm. Bjarni Benediktsson vitnaði í ummæli sem eftir mér voru höfð í Fréttablaðinu í síðustu viku um gang viðræðna við Evrópusambandið um aðild. Þær viðræður sem núna eru í gangi byggjast á samþykkt Alþingis. Þegar Alþingi samþykkti þingsályktunartillögu um að sækja um aðild að Evrópusambandinu var því lýst mjög nákvæmlega í nefndaráliti utanríkismálanefndar hvernig þær viðræður mundu fara fram. Ég er þeirrar skoðunar að þær séu í öllum meginatriðum í samræmi við það sem lagt var upp með í því nefndaráliti og allir sem kynna sér það til hlítar og glöggva sig á því ættu að geta séð það þó að í einstökum atriðum, ekki síst hvað varðar tímasetningar, hafi að einhverju leyti út af brugðið, þ.e. ferlið hefur tekið heldur lengri tíma en menn gerðu í meginatriðum ráð fyrir. Ferlið er engu að síður eins og lagt var upp með.

Hér er vísað til þess að ég hafi látið hafa það eftir mér að sú staða kynni að koma upp að það þyrfti að slíta viðræðum eða taka ákvörðun um það ef við rækjumst á veggi, ef svo má segja. Það er ekkert nýtt í þessari yfirlýsingu. Nákvæmlega sömu sjónarmið komu upp í framsöguræðu minni með nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar hinn 16. júlí 2009. Nákvæmlega sömu efnislegu ummæli féllu af hálfu formanns Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs þegar hann gerði grein fyrir þeim fyrirvara sem flokkurinn hefði hvað þetta ferli varðar þannig að það er ekkert nýtt í þessari yfirlýsingu sem á að hafa komið nokkrum manni á óvart.

Mér er alveg kunnugt um þau álitamál sem hv. þm. Bjarni Benediktsson ræðir um og komu til umfjöllunar á sínum tíma um stjórnskipulegt ferli málsins sjálfs. Við tókumst á um það. Bæði er því lýst í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar og eins var tekist á um það í þingsal. Ég er enn þeirrar skoðunar persónulega, en ég undirstrika að það eru mjög skiptar skoðanir um nákvæmlega þetta atriði í mínum flokki og þar verður hver að tala fyrir sig. (Forseti hringir.) Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að ljúka þessu viðræðuferli, bera niðurstöðuna svo undir þjóðina í almennri þjóðaratkvæðagreiðslu og að hún ráði lyktum þess.