139. löggjafarþing — 60. fundur,  18. jan. 2011.

störf þingsins.

[14:16]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég er ekki með neina spurningu til ákveðins þingmanns, frú forseti, heldur vil ég nefna þá stöðu sem upp er komin núna síðast í fréttum um atvinnuástand á Vestfjörðum, nú Flateyri. Þá sömu sögu má að vísu finna víða um land, ekki síst vegna þess að þær aðstæður hafa verið skapaðar eða eru til staðar í landinu bjóða upp á mikinn ójöfnuð. Þetta snýst ekki um eina atvinnugrein, heldur snýst þetta um almennan ójöfnuð á milli þeirra sem búa í þéttbýli og hinna sem búa á landsbyggðinni. Við erum að tala um samgöngur, flutningskostnað, aðgengi að þjónustu, aðgengi til náms, rafmagnskostnað, rafhitun og slíkt.

Frú forseti. Ég held að það sé mikilvægt að við tökum þær fréttir sem við fáum núna að vestan mjög alvarlega og bregðumst við með ákveðnum hætti, að þingið bregðist við þessum fréttum. Ég held að það sé alveg hægt að gleyma því, frú forseti, að ríkisstjórnin muni gera eitthvað í þessum málum, því miður. Það er óvissa um nánast allt varðandi framtíð landsins, m.a. sjávarútveginn. Hæstv. forsætisráðherra gat ekki svarað í gær þeirri einföldu spurningu sem hv. þm. Bjarni Benediktsson beindi til hennar hvort sömu skilyrði, sama staða og svipaðir samningar ættu að gilda um orkuna, jarðhitann, vatnsaflið og sjávarútveginn þegar talað er um að festa eign þjóðarinnar á náttúruauðlindum í stjórnarskrá. Hæstv. forsætisráðherra gat ekki svarað þessari spurningu.

Málið snýst ekki um eitthvert eitt atriði við það að byggð hopi og hafi verið að hopa á landsbyggðinni eða að þar sé fólk að tapa störfum. Þetta snýst um umgjörðina í heild. Það er hún sem við þurfum að taka á, (Forseti hringir.) við þurfum að vernda störfin í heilbrigðiskerfinu, við þurfum að koma í veg fyrir hinn mikla niðurskurð ríkisstjórnar hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur, (Forseti hringir.) sem kallaði hér fram í, frú forseti, koma í veg fyrir að niðurskurður þessar ógæfusömu ríkisstjórnar verði að veruleika.