139. löggjafarþing — 60. fundur,  18. jan. 2011.

rannsóknarnefnd um aðdraganda ákvörðunar um stuðning Íslands við innrásina í Írak árið 2003.

147. mál
[17:45]
Horfa

Flm. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef lesið ýmislegt sem umræddur fræðimaður, Valur Ingimundarson, hefur skrifað um íslensk utanríkismál og m.a. bók þar sem hann rekur breytingar á stefnumörkun íslenskra stjórnvalda í utanríkismálum. Umrædda grein hef ég ekki undir höndum þannig að ég get ekki fullyrt um það sem þar stendur. Ég vil þó segja það almennt um þetta mál að jafnvel þó að um það hafi farið fram umræða og skrif fræðimanna eða blaðaskrif eða viðtöl við þá sem hlut áttu að máli, sem að sjálfsögðu hefur verið og ýmsir hafa tjáð sig um það sem komu að þessum ákvörðunum, kemur það ekki endilega í staðinn fyrir það sem hér er lagt til, að Alþingi fari sjálft yfir þessar ákvarðanir.

Það hefur komið fram í umræðunni að þeir tveir forustumenn í íslenskum stjórnmálum, í þáverandi ríkisstjórn, sem báru ábyrgð á þessari ákvörðun hafa komið fram og lýst því að þeir hafi tekið þessa ákvörðun, talið sig hafa umboð og rétt til þess og séu ekkert að skjóta sér undan henni. Það þýðir ekki að það eigi ekki að fara yfir aðdragandann að þessum ákvörðunum, hvernig að þeim var staðið og á hvaða grundvelli þessar ákvarðanir voru teknar þannig að Alþingi geti metið það og menn geti þá hugsanlega lært eitthvað í framhaldinu og sett frekari reglur.

Ég tel að það sé allt á sínum stað þrátt fyrir alla umræðu, yfirlýsingar og jafnvel skrif fræðimanna þar að lútandi.