139. löggjafarþing — 61. fundur,  19. jan. 2011.

orkuskipti í samgöngum.

403. mál
[14:53]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta heitir tillaga til þingsályktunar um orkuskipti í samgöngum, það þurfti að halda fókus og hefja þessa vinnu á einum stað. Þegar við tölum hér um stuðning við fyrirtæki í nýsköpun við þróun nýrra eldsneytisgjafa eru það svo sannarlega fyrirtæki sem líka horfa á skipaflotann. Við höfum þegar í dag styrkt fyrirtæki sem hafa náð gríðarlega góðum árangri í orkusparnaði í skipaflota okkar Íslendinga og það er ætlun okkar að af þessari vinnu leiði framför og framþróun á því sviði.

Þetta er mikilvægt skref og í þeirri vinnu sem fram undan er mun það sem hér er að gerast líka hafa áhrif á aðra samgöngumáta, svo sem þann sem er á sjónum. Þetta er ekki einskorðað við bílaflotann, heldur er horft á samgöngurnar í heild sinni vegna þess að það leiðir af sjálfu sér að eldsneyti sem þróað er fyrir bílaflotann á að geta nýst líka skipaflotanum, virðulegi forseti. Hér er ekki verið að loka á neitt. Þó að skattatillögur í þessari þingsályktunartillögu taki eingöngu til ökutækja í þröngri merkingu er það af öðrum ástæðum. Aðrir þættir eiga jafnt við um aðra samgöngumáta.