139. löggjafarþing — 61. fundur,  19. jan. 2011.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða.

382. mál
[15:44]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í sjálfu sér eins og aðrir fagna þessu frumvarpi. Ég held að meginmarkmið þess séu okkur mikilvæg til uppbyggingar á ferðaþjónustu, til aukins öryggis á ferðamannastöðum og bættrar umgengni og frekari verndar náttúru landsins á viðkvæmum stöðum.

Við höfum öll orðið vitni að því á undanförnum árum hve öryggismálum er ábótavant þegar kemur að þekktum stöðum, jafnvel okkar fjölmennustu ferðamannastöðum eins og Geysi í Haukadal þar sem á hverju ári verða nokkur misalvarleg slys. Við höfum orðið vitni að því hvernig umgengni er orðin víða, sérstaklega á hálendinu þar sem hún er ekki mönnum bjóðandi. Það kemur auðvitað til af því að aðstaða er mjög bágborin og engan veginn fullnægjandi þeim aukna ferðamannastraum sem fer þar um. Áframhald núverandi aðstæðna mun hreinlega hefta alla uppbyggingu í ferðaþjónustu, skaða náttúru okkar til lengri tíma litið og vinna gegn þessari mikilvægu atvinnugrein. Það er því mjög mikilvægt að við förum að huga að þessum málum og leita fjármagns til að fara í uppbyggingu, viðhald mannvirkja og verndun náttúru á ferðamannastöðum eins og segir í 1. gr. frumvarpsins.

Ekki er með þessu frumvarpi hugsað að rekstrarkostnaður við aðstöðu á þessum stöðum verði greiddur úr sjóðnum sem þarna myndast. Það hlýtur að vera eitthvað sem við þurfum að horfa sérstaklega til. Kem ég þá kannski að því sem er jú viðkvæmi hlutinn í frumvarpinu en það er sú gjaldtaka sem fyrirhuguð er og hvernig henni verður hagað. Ég hef miklar efasemdir um að við séum að fara rétta leið þegar við förum í þá almennu skattlagningu sem fyrirhuguð er í frumvarpinu. Reynsla okkar af eyrnamerktum sköttum til ákveðinna framkvæmda, sköttum sem renna í ríkissjóð og eiga síðan að fara til ákveðinna framkvæmda eða verkefna, er ekki góð, virðulegi forseti. Ég get nefnt nærtækasta dæmið sem er bensíngjaldið eða eldsneytisgjaldið sem hefur náttúrlega, eins og við öll vitum, engan veginn skilað sér til þeirra verkefna sem það er eyrnamerkt. Það má vel finna fleiri skatta á þessum vettvangi þar sem málum er þannig varið.

Ég hefði haldið að best væri að gera þetta fyrir utan ríkissjóð. Þegar hv. þm. Þór Saari sagði áðan að hann væri ánægður með að við ætluðum ekki að leggja þetta gjald á innlenda ferðamenn, Íslendinga sem í auknum mæli ferðast um landið, skoða fallega náttúru þess og staði, þá er það auðvitað alrangt. Við ætlum einmitt að leggja gjald á alla ferðamenn. Samkvæmt þessu frumvarpi ætlum við að leggja á gjald sem verður innheimt af seldum gistinóttum á öllum stöðum þar sem því verður við komið og við ætlum að leggja það á alla farþega sem fara með flugvélum og farþegaskipum. Það er auðvitað fullt af Íslendingum sem ferðast með flugvélum hvort sem er innan lands eða á milli landa og Íslendingar gista úti um allt land. Þetta hefur auðvitað mikinn kostnað í för með sér fyrir samfélagið í heild sinni, fólkið sem ferðast á landsbyggðinni, fólkið úti á landi sem þarf að ferðast innan lands með flugi, þá sem starfa sinna vegna þurfa að ferðast erlendis og eins alla þá innlendu starfsmenn, Íslendinga, sem eru á ferð og flugi um landið vegna starfa sinna og þurfa að gista á hinum ýmsu stöðum. Auðvitað leggst gjaldið á alla og það er það sem ég hræðist.

Ferðaþjónusta er ekki bara heimsóknir á ferðamannastaði. Við horfum til þess í framtíðinni að auka fjölbreytni í ferðaþjónustu okkar eins og hæstv. iðnaðarráðherra kom inn á. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að horft sé til vaxtarbrodda í íslenskri ferðaþjónustu og lengingar helsta ferðamannatímabilsins sem við þurfum að fara í til að nýta allar þær fjárfestingar sem eru til staðar. Það bætist ekki lítil fjárfesting við á þeim vettvangi, virðulegi forseti, þegar ráðstefnuhúsið í Reykjavík tekur til starfa á þessu ári. Jákvæði hlutinn við þá framkvæmd er að það mun breyta allri aðstöðu til ráðstefnu- og tónleikahalds. Við gerum okkur vonir um að það verði til að efla íslenska ferðaþjónustu, innlenda ferðaþjónustu, og gefi tækifæri og sóknarfæri sem hafa ekki boðist áður.

Ég hræðist að sú gjaldtaka sem er fyrirhuguð samkvæmt þessu frumvarpi geti verið samkeppnisletjandi eða dregið úr samkeppnisstöðu okkar gagnvart öðrum löndum þegar kemur að því hvar erlendir aðilar ákveða að halda ráðstefnur og annað sem því tengist. Við getum nefnt heilsutengda ferðaþjónustu í þessum efnum og í raun fjöldann allan af öðrum möguleikum. Hætta er á að flöt hækkun sem ríkisvaldið hefur síðan tilhneigingu til að seilast í til annarra hluta, sérstaklega þegar erfiðlega gengur, fari í að borga eitthvað annað. Það er auðvelt að hækka með einu pennastriki en ég óttast að það sé röng leið. Ég mun beita mér fyrir því í hv. iðnaðarnefnd að við skoðum möguleikana í stöðunni. En markmiðið er það sama og því er ég sammála. Ég er sammála hæstv. ráðherra og þeim sem hér hafa talað að það er tímabært að við horfum til þessara hluta.

Ég held að gjaldtakan væri betur vörðuð í þeirri leið að á helstu ferðamannastöðum, þar sem því verður við komið, yrði annast um innheimtu þessara gjalda og hluti af gjaldinu rynni til uppbyggingar og þjónustu á þeim stað sem um ræðir en restin rynni í sameiginlegan sjóð sem ferðaþjónustan með aðkomu ríkisvaldsins hefði til umráða á þeim stöðum sem þurfa þykir. Í því væri ákveðinn hvati, það mundi hvetja staði og sveitarfélög í samvinnu við ríkisvaldið til að koma upp gjaldtöku á þekktum ferðamannastöðum og skapa þar með betri aðstöðu til að taka á móti ferðamönnum, skemmtilegra umhverfi og aukin atvinnutækifæri.

Ég vil taka Dimmuborgir sem dæmi. Mér er minnisstætt þegar ég var á ferð um landið með einni af nefndum þingsins, sennilega 2007 eða 2008, þegar við heimsóttum m.a. ferðamannastaði og komum í Dimmuborgir. Okkur var sagt að þeir tækju á móti hátt í 200 þúsund ferðamönnum á ári. Mikið af skemmtiferðaskipum kæmu til Akureyrar og Húsavíkur og færu þar um. Aðstaðan var þannig að rútur gátu ekki snúið við á bílastæðunum og hreinlætisaðstaðan sem var í gámaskúrum á hlaðinu var engan veginn boðleg. Óskað var eftir því að við þingmenn mundum beita okkur fyrir því að fá 15 millj. kr. framlag til að hægt væri að byggja upp mannsæmandi aðstöðu, bæði bílastæði og snyrtingu. Ef þessi staður með 200 þúsund ferðamenn tæki gjald sem nemur 1 evru að jafnaði á hvern ferðamann sem þangað kemur þá gerir það um 30 millj. kr., tvær evrur gera 60 millj. kr. Það er alveg ljóst að á þessum stað yrði með slíkri gjaldtöku, sem gæti ekki annað en talist mjög hófleg, byggð upp mjög blómleg starfsemi og aðstaðan til að taka á móti ferðamönnum yrði allt önnur í framtíðinni. Staðurinn væri líka aflögufær til að leggja til þeirra staða þar sem gjaldtakan væri erfiðari en þar væru verkefnin sem þyrfti að sinna svo sannarlega til staðar.

Það er ekki óþekkt að fólk borgi fyrir þjónustu á þeim stöðum sem það fer á. Þannig er það í Bláa lóninu sem er nú með fjölsóttustu ferðamannastöðum landsins. Ég veit ekki hve margir koma í Bláa lónið, ætli þeir séu ekki komnir yfir 300 þúsund á ári? Allir borga þar gjald, ég mundi ekki einu sinni segja hóflegt vegna þess að það er dýrt að fara í Bláa lónið. Ég er ekki að segja að það sé of dýrt en það er dýrt í því samhengi sem við erum að tala um. Eins á þetta við um allar almenningssundlaugarnar sem reknar eru af sveitarfélögum úti um land allt og eru mjög vinsælir ferðamannastaðir, ef við getum orðað það svo. Þar er gjaldtakan fyrir hendi og fjármagnið rennur til reksturs og uppbyggingar á þeim stöðum. Ég held að þetta sé í raun miklu skynsamlegri leið til að ná því markmiði sem við ræðum um.

Það er alveg ljóst að í framtíðinni þurfum við að takmarka fjölda ferðamanna á ákveðnum stöðum ef þær spár ganga eftir sem við höfum um aukningu á ferðamannafjölda til landsins. Ég vil þó setja þann fyrirvara við þær spár að ef ríkið hagar sér ekki skynsamlega í gjaldtöku þá kemur að því að við þurfum að hefta þann vöxt. Það er vandmeðfarið mál hvernig við ætlum að haga skattlagningu á þessa atvinnugrein umfram aðrar. En ef spárnar ganga eftir, sem við gerum okkur vonir um, þá er alveg ljóst að við þurfum að takmarka aðgang að ferðamannastöðum og opna aðgang að fleirum til að dreifa álaginu. Ég sé ekki betri leið en þessa til þess.

Ég veit af því sem komið hefur fram í málflutningi hv. þingmanna að í meðferð þessa máls hefur leiðarljósið m.a. verið sjónarmið umhverfisverndar, umhverfissjónarmið. Ég tek hjartanlega undir það og held að ég geti fullvissað hv. þingmenn um að undir forustu hæstv. forseta, Kristjáns L. Möllers, sem formanns iðnaðarnefndar munum við nefndarmenn sem erum almennt séð miklir umhverfissinnar og vinir náttúrunnar, þótt við viljum þar skynsamlega nýtingu, hafa það að leiðarljósi og alveg örugglega reyna að ganga þannig frá málinu að það mæti ekki síst þessum sjónarmiðum en á sama tíma verði þannig um hnútana búið að efla megi ferðaþjónustuna í stað þess að letja eða hefta vöxt hennar.

Ég held að ég láti þetta nægja, virðulegi forseti. Ég er sammála markmiði frumvarpsins. Það er aðallega af þeirri leið sem nefnd skipuð af hæstv. fjármálaráðherra skilaði tillögum sínum um í fyrra eða af niðurstöðunni sem ég hef áhyggjur. Ég mun beita mér fyrir því í vinnu nefndarinnar að við leitum allra sjónarmiða. Við þurfum m.a. að fara yfir gögn úr nefndarvinnu til að finna rökstuðninginn. En ég tel almennt séð heppilegra að þessari gjaldtöku verði frekar komið út til þeirra sem eru starfandi í ferðaþjónustunni, til þeirra staða sem mest þurfa á henni að halda og hægt er að framkvæma hana á. Einhvers konar hvatakerfi verður að vera svo að hluti innheimtunnar fari til uppbyggingar á viðkomandi stað en annað renni í sameiginlegan sjóð sem sinni þeim svæðum sem þurfa á fjárframlagi að halda en eiga erfiðara með gjaldtöku.