139. löggjafarþing — 61. fundur,  19. jan. 2011.

skipulagslög.

113. mál
[16:23]
Horfa

Flm. (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég er komin hingað til að mæla fyrir frumvarpi til laga um breytingu á skipulagslögum, nr. 123/2010. Þetta er nýr lagabálkur sem fór í gegnum mikla vinnu í þinginu fyrir áramót en því miður fékk ég ekki tækifæri til að mæla fyrir þessari breytingu á annars vegar 32. gr. laganna og hins vegar 36. gr. Ég vonast hins vegar til þess að hv. umhverfisnefnd geti tekið málið aftur upp og skoðað hvort það yrði ekki málinu eða lögunum mjög til bóta að bæta við þessum ákvæðum. Þau eru, með leyfi forseta, svohljóðandi:

„Eftirfarandi breytingar verða á 32. gr. laganna:

a. Við 3. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Hafi Skipulagsstofnun ekki afgreitt aðalskipulagstillögu með staðfestingu, synjun eða frestun staðfestingar þess að öllu leyti eða hluta að liðnum fjögurra vikna fresti er sveitarstjórn heimilt að ákveða að aðalskipulagið skuli taka gildi uns ákvörðun Skipulagsstofnunar liggur fyrir og skal sveitarstjórn þá auglýsa það í B-deild Stjórnartíðinda.

b. Við 4. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ráðherra skal synja, fresta eða staðfesta aðalskipulag innan fjögurra vikna frá því að tillaga frá Skipulagsstofnun barst ráðuneytinu.

c. Við 5. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Hafi ráðherra ekki afgreitt aðalskipulagstillögu með synjun, frestun eða staðfestingu aðalskipulags skv. 4. mgr. er sveitarstjórn heimilt að ákveða að aðalskipulagið skuli taka gildi uns ákvörðun ráðherra liggur fyrir og skal sveitarstjórn þá auglýsa það í B-deild Stjórnartíðinda.“

Svo er raunar viðbót þarna við 36. gr. sem er nokkuð samhljóða:

„Hafi Skipulagsstofnun ekki afgreitt tillögu sveitarstjórnar innan fjögurra vikna frests er sveitarstjórn heimilt að ákveða að tillagan skuli taka gildi uns ákvörðun Skipulagsstofnunar liggur fyrir og skal sveitarstjórn þá auglýsa hana í B-deild Stjórnartíðinda.“

Það hefur verið töluverð umræða í samfélaginu um það hversu slæm staðan er í íslensku atvinnulífi og mikilvægi þess að bæði einstaklingar og fyrirtæki taki ákvörðun um að fjárfesta upp á nýtt. Þær tölur sem við höfum séð í efnahagsútreikningum sýna að samdráttur í íslensku atvinnulífi er einstakur, hvort sem við lítum austur eða vestur um haf. Það er að mínu mati alveg á hreinu að fjárfestingar í atvinnulífinu eru forsenda hagvaxtar í landinu og forsenda endurreisnar Íslands. Til þess að fyrirtæki og einstaklingar séu tilbúin til að taka ákvörðun um fjárfestingu þarf að huga að ákveðnum atriðum og skapa hagstætt umhverfi fyrir fjárfesta. Maður hefur heyrt ítrekað t.d. hv. þingmenn Samfylkingarinnar hér í þinginu benda á að það sé ekki stjórnvalda eða Alþingis að skapa störf heldur að búa til hagstætt starfsumhverfi. Undir það hafa þingmenn hins stjórnarflokksins, Vinstri grænna, tekið og hafa þá bent á að fyrri ákvarðanir þar sem stjórnvöld höfðu frumkvæði að því að ákveðin fjárfestingarverkefni færu af stað væru andstæð því sem þessi stjórn stæði fyrir.

Ef við horfum hins vegar til þeirra ákvarðana sem stjórnvöld hafa tekið tel ég umhverfi til fjárfestinga ekki hafa verið sérstaklega aðlaðandi. Það umhverfi sem stjórnvöld hafa búið fyrirtækjum er alls ekki fyrirsjáanlegt, alls ekki samkvæmt sjálfu sér, sérstaklega hvað varðar skattaleyfisveitingar og ýmsar lagalegar reglur. Það er ástæðan fyrir því að ég legg fram þetta frumvarp. Á fundum sem ég hef átt með Fjárfestingarstofu Íslands kom fram að þegar fyrirtæki væru að velta fyrir sér hvort þau hefðu áhuga á að fjárfesta á Íslandi eða ekki spyrðu þau mjög oft hversu langan tíma afgreiðsla á t.d. skipulagsmálum tæki í íslenskri stjórnsýslu. Það hversu erfitt hefur verið að fá svör um þessi skýru tímamörk hefur reynst mjög bagalegt og dregið úr áhuga þessara aðila á að fjárfesta.

Dæmi um þetta er það sem við höfum lesið um og séð, að tafir á afgreiðslu tillagna af aðalskipulagi fyrir ýmis sveitarfélög hjá Skipulagsstofnun og umhverfisráðherra hafa verið mjög miklar. Því miður hefur þetta verið sérstaklega áberandi hjá mörgum litlum sveitarfélögum í Suðurkjördæmi, mínu kjördæmi, og má þar nefna Flóahrepp, Skeiða- og Gnúpverjahrepp, Sveitarfélagið Ölfus og Mýrdalshrepp. Umhverfisráðherra hefur fært rök fyrir því af hverju tafir hafa orðið á afgreiðslunni og lagt áherslu á að unnið hafi verið að öllum málum eins hratt og kostur er. Hins vegar er alveg ljóst að þau hafa tafist mjög mikið. Skilvirknin í stjórnsýslunni í þeim stofnunum sem tilheyra umhverfisráðuneytinu hefur alls ekki verið næg, það hefur jafnvel dregist langt umfram gefna kærufresti eða afgreiðsla ráðuneytisins hefur hafnað fyrir dómstólum líkt og í tilfelli Flóahrepps.

Ég tel að með því að innleiða þessa breytingu á skipulagslögum mundum við búa til skilvirkara ferli. Það væru þá komnir alveg skýrir frestir sem bæði Skipulagsstofnun og umhverfisráðherra hefðu til að synja, fresta eða staðfesta aðalskipulag. Það væri líka komið ákveðið úrræði fyrir sveitarfélögin, í staðinn fyrir að standa í endalausum bréfaskriftum og símtölum til að reyna að fá einhverjar skýringar á því af hverju málin tefjast svona mikið geta þau tekið ákvörðun, en þetta er samt valkvætt, um að sú aðalskipulagstillaga sem þau hafa lagt fram skuli taka gildi uns ákvörðun ráðherra eða Skipulagsstofnunar liggur fyrir.

Ef sveitarfélagið gerir ekki neitt, tekur ekki ákvörðun um að auglýsa það í B-deild Stjórnartíðinda, bíður málið bara í viðkomandi stofnun en ef þau hins vegar fá engar útskýringar, engin samskipti eru á milli Skipulagsstofnunar eða umhverfisráðuneytisins um ástæðuna fyrir því að málin hafa tafist svona, geta þau gripið til þessara aðgerða.

Þegar ég var að undirbúa þetta mál var mér bent á að menn væru að velta fyrir sér málum sem gætu komið upp og vörðuðu ábyrgð sveitarfélagsins. Ef teknar væru einhverjar ákvarðanir á því tímabili um skipulagið, samþykkt af sveitarfélaginu, yrði Skipulagsstofnun eða umhverfisráðherra síðar að taka ákvörðun ef það gæti ekki gengið.

Það er alveg ljóst að samkvæmt þessum lögum er það aðalskipulag í gildi þar til ákvörðunin um að synja eða fresta staðfestingu þess formlega er tekin og þar með þær ákvarðanir sem sveitarstjórn tekur á grundvelli þess skipulags. Ég held að það sé nokkuð sem við þyrftum almennt að skoða mun betur. Eitt af því sem ég tel að hafi komið mjög skýrt fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og þingmannanefndin lagði mjög mikla áherslu á er mikilvægi þess að skerpa á regluverki stjórnsýslunnar og tryggja hvarvetna vandaðri vinnubrögð. Þetta er viðleitni til þess að hjálpa viðkomandi stofnunum og ráðherrum við það að vanda vinnubrögð sín.

Ég mælist til þess að þetta frumvarp fari til umhverfisnefndar til meðferðar. Þá þyrfti að endurskoða það upp á það hvenær lögin tækju gildi, þau gætu tekið gildi um leið og Alþingi samþykkir frumvarpið og yrðu þá færð inn í hin nýju skipulagslög.