139. löggjafarþing — 61. fundur,  19. jan. 2011.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[16:41]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef engar skýringar á því af hverju hv. þingmaður telur að ég muni kenna kvótakerfinu um að störf tapast úti á landsbyggðinni. Ég ætla ekki að gera það. Okkur eru öllum kunnar skuggahliðar kvótakerfisins. Við sjáum þær birtast á Flateyri, við þekkjum þá stöðu. Ég hefði gjarnan viljað að einhvers konar varnarviðbúnaður væri til að taka á slíku þegar það gerist, hefði verið partur af arfleifð Framsóknarflokksins sem kom því kerfi á, en látum það nú vera.

Hins vegar ætla ég að segja hv. þingmanni eitt. Það hefur verið aðall Framsóknarflokksins sem stendur í hinni helgu bók: Ræða þín skal vera já, já og nei, nei. Menn eiga að tala skýrt og afdráttarlaust.

Hv. þingmaður kemur hér upp og gagnrýnir tillögu Sjálfstæðisflokksins öðrum þræði. Hann segir: Ég er ekki sammála öllu. Gott og vel. Hvað er það sem hv. þingmaður telur gagnrýnisvert? Hvað er það í þeirri tillögu sem hv. þingmaður segir að hann sé ekki sammála? Hvað er það sem Framsóknarflokkurinn vill út af borðinu í tillögu Sjálfstæðisflokksins? Hv. þingmaður hlýtur að geta upplýst mig um það því að hann hefur sagt sem talsmaður Framsóknarflokksins að hann sé ekki sammála öllu.

Varðandi flutning af landinu er það rétt að fólk hefur leitað erlendis að atvinnu um stundarsakir vegna efnahagserfiðleika. Sumir ílendast því miður ytra. Hitt er samt sem áður staðreynd: Frá desember síðastliðnum, miðað við desember árið áður, hafði störfum fjölgað verulega á Íslandi vegna þess að atvinnulausum hafði fækkað um 1.357. Það sem skiptir þó mestu er að Íslendingum fjölgaði á síðasta ári. Þeim sem búa á Íslandi fjölgaði.