139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

erlendar fjárfestingar.

[11:09]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég held að til viðbótar þeim fjárfestingum ýmsum sem þegar hefur verið ákveðið að ráðast í eða eru hafnar framkvæmdir við, eins og stækkun og uppfærslu álversins í Straumsvík þar sem Rio Tinto Alcan hefur tekið ákvörðun um umtalsverða fjárfestingu og Landsvirkjun að sama skapi væntanlega mun setja byggingu Búðarhálsvirkjunar á fulla ferð, þá mætti nefna ýmsar meðalstórar fjárfestingar í lyfjaiðnaði og gagnaiðnaði og ein tvö til þrjú lítil og meðalstór fjárfestingarverkefni sem góðar horfur eru á að endanlegar ákvarðanir verði teknar um á næstu dögum og vikum.

Varðandi íbúa í Þingeyjarsýslum held ég að ástæða sé til að horfa til þess að Landsvirkjun hefur sjálf upplýst að hún eigi í viðræðum við fjóra, fimm áhugasama orkukaupendur og hún hefur áhuga á því að stækka þann hóp upp í 10 þannig að úr sem mestu verði að velja. Fyrirtækið hefur þegar ákveðið umtalsverðar fjárfestingar á svæðinu á næsta sumri. Hátt í 2 milljörðum kr. verður varið til rannsókna og borana á háhitasvæðunum í Suður-Þingeyjarsýslu, við Þeistareyki, í Kröflu og Bjarnarflagi. Það sýnir auðvitað áhuga og þá stefnu Landsvirkjunar að bera þarna niður og mjög margt teiknar til þess að næsta virkjun sem Landsvirkjun ræðst í samhliða eða á eftir Búðarhálsvirkjun verði á þessu svæði.

Skýr stefna í orku- og auðlindamálum og löggjöf sem tryggir sameign á sameiginlegum auðlindum hefur ekkert með það að gera að erlend fjárfesting sé ekki velkomin í landið en það er auðvitað mikilvægt að löggjöfin liggi fyrir, sé skýr, og það er bagalegt að upp komi deilumál af því tagi sem tengst hafa fjárfestingum Magma en við því er ekki að gera. Stefna ríkisstjórnarinnar að því leyti liggur skýr fyrir og það er vel þekkt um lönd og álfur að menn hafi löggjöf til verndar forræði sínu og/eða eignarhaldi og arðsnýtingarrétti á sameiginlegum og mikilvægum náttúruauðlindum, þannig að erlendir fjárfestar þurfa ekkert að óttast (Forseti hringir.) í þeim efnum, þeir þekkja það vel svo sem frá Kanada. Ég held að það sé alger stormur í vatnsglasi að Magma-málið fæli almennt erlenda fjárfesta frá, enda fjölgar (Forseti hringir.) þeim nánast dag hvern sem banka á dyrnar og vilja gjarnan komast í röðina til að nýta okkar umhverfisvænu orku.