139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

flokksráðssamþykkt VG um styrki ESB.

[11:17]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla í upphafi að viðurkenna að ég ætla aðeins að skáskjótast fram hjá því sem ég ætlaði upphaflega að spyrja um en það er náskylt.

Í dag og í gær komu fram misvísandi upplýsingar og í rauninni misvísandi skilaboð frá formanni Vinstri grænna og þeim ágæta flokki um Evrópusambandsaðlögunina sem sumir kalla svo. Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafði ekki tíma til að svara ákveðnum spurningum áðan varðandi meinta ritskoðun í utanríkisráðuneytinu á svörum sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur unnið, en það hefur líka komið fram að á flokksráðsfundi Vinstri grænna hafi verið samþykkt sérstaklega að ekki skuli tekið við eða sótt um svokallaða styrki sem Evrópusambandið heldur nú að íslenskri stjórnsýslu.

Mig langar því að spyrja hæstv. fjármálaráðherra og formann Vinstri grænna í ljósi þessara misvísandi upplýsinga og kannski ekki síst í ljósi orða sem féllu hér í gær um að þingflokkur Vinstri grænna hefði ekki rætt það neitt sérstaklega að breyta frá þessari samþykkt flokksráðsins. Er það svo, hæstv. fjármálaráðherra, að þingflokkur Vinstri grænna og þá um leið ráðherrar flokksins ætli sér að virða samþykkt flokksráðsins um að sækja ekki um þá styrki sem Evrópusambandið falbýður Íslendingum í dag? (Utanrrh.: Það er ekki í samþykkt flokksráðs.)