139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára.

334. mál
[11:40]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. Ég þakka fyrirspurnirnar. Það er nákvæmlega þessi umræða sem þarf að fara fram, þ.e. með hvaða hætti getum við varið stöðu kynjanna bæði í fjárlagagerðinni og almennt í rekstri ríkisins? Það er nú einu sinni svo að mikill meiri hluti starfsmanna ríkisins eru konur. Niðurskurðurinn kemur því hvað fjölda varðar verr niður á konum þó að fjöldinn geti verið eðlilegt hlutfall af því sem er á vinnumarkaðnum.

Ég vil aðeins svara spurningunni varðandi fjárlagafrumvarpið. Ef við ættum alla þá mælikvarða sem okkur vantar í sambandi við íslenska stjórnsýslu, m.a. varðandi áhrif fjárlagagerðar á einstaka þætti, hvort sem það á við um byggðamál, kynjajafnrétti eða annað slíkt, gætum við fjallað um þetta á faglegum nótum. Svo er ekki. Þess vegna er verið að setja inn tillögur um kynjaða hagstjórn eða sem sagt farið í að vinna með greiningartæki og prófað að fara eftir ákveðnum aðferðum. Verið er að innleiða það hægt og bítandi en það er ekki komið á fjárlagagerðina í heild. Það hlýtur að vera markmiðið. Þetta mælitæki á einmitt að geta svarað því hvaða áhrif einstakar aðgerðir hafa á stöðu ólíkra hópa. Ég bind vonir við að við getum fetað þá leið áfram og fengið skýrari svör.

Hvort þetta hefði komið í veg fyrir breytingarnar í fjárlagafrumvarpinu er það ekki útilokað ef kynjaða hagstjórnin hefði verið komin til framkvæmda að fullu. En, eins og ég sagði, erfitt er að meta það vegna þess hve margar konur eru á vinnumarkaðnum hjá hinu opinbera. Þess ber þó að geta að þrátt fyrir allt er meiri hluti atvinnuleitandi fólks enn þá karlmenn þó að það hafi jafnast mjög frá því sem upphaflega var og ber að hafa það í huga.

Varðandi fæðingarorlofið var hætt við að breyta því frekar en ég vil bara taka undir með hv. þingmanni að það er fyrirkomulag, þ.e. fæðingarorlofið, sem við þurfum að verja og byggja upp að nýju. (Forseti hringir.) Það hefur haft veruleg áhrif á jafnrétti kynjanna þannig að við skulum gæta okkar í framhaldinu.