139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára.

334. mál
[11:50]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka skýringar hæstv. ráðherra svo langt sem þær ná en það er ekki mjög langt af því að það eru ekki til svör við þessum spurningum. Laun sjómanna eru nokkuð þokkaleg eða bara góð og það er atvinnuleysi hjá fólki. Maður spyr sig: Hvers vegna sækja konur ekki um að vera sjómenn? (Gripið fram í.) Hvers vegna eru ekki fleiri konur í sjómannastétt? (Gripið fram í.) Þá segja sumir kannski að það sé vegna ábyrgðar gagnvart börnunum. Bíðum nú við, er ekki ábyrgð karlmanna gagnvart börnum líka til staðar? Við þurfum að velta því fyrir okkur hvernig stendur á því að það er svona mikil kynjaskipting milli stétta þar sem hver maður tekur ábyrgð á sinni ákvörðun. Hvernig stendur á því að fólk fer í ákveðnar stéttir bara vegna kyns? Af því að ég er kona sæki ég um þarna en af því að ég er karlmaður sæki ég um þarna. Ég velti þessu fyrir mér.

Það eru ýmis teikn á lofti um að það sé að breytast eins og t.d. aðsókn kvenna að háskólum sýnir. Ég tel reyndar að það sé námslánakerfið og viss oftrygging vegna barna í því kerfi sem veldur því og ábyrgð kvenna á uppeldi barna virðist enn þá vera mjög sterk þó að það standi hvergi í lögum. Mér finnst þetta vera eitthvað sem þarf að skoða.

Það er ekki nóg að gera áætlanir. Það er ekki nóg að telja fjölda o.s.frv. Það þarf að breyta þessu viðhorfi í fjölskyldunum, hjá hverjum einstaklingi þannig að þjóðfélagið geti nýtt krafta hvers og eins, menntun hans, frumkvæði og dugnað, alveg sama af hvaða kyni hann er.