139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára.

334. mál
[12:11]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það var hressileg uppgötvun hjá hv. þingmanni að átta sig á því að karllæg sjónarmið væru ekki eingöngu bundin við karla. (Gripið fram í: Það felst í nafninu.) Það er einmitt þannig. Karllæg sjónarmið eru ekki bundin eingöngu við karlkynið, það eru ákveðin sjónarmið sem hafa ráðið í samfélaginu árum saman, ákveðið viðhorf, í þessu samfélagi sem og öðrum árum saman. Það eru þessi viðhorf sem eru karllæg og menn verða að fá að velta fyrir sér af hverju svo er. Það er hárrétt hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal, þessum viðhorfum þarf að breyta til að árangur náist í jafnréttismálum, jafnt kynbundnum jafnréttismálum sem öðrum. Jafnrétti meðal kynja og innan kynja. Það er einfaldlega þannig sem hlutirnir þurfa að vera. Þess vegna þurfum við að nálgast verkefnið út frá því hvar við förum að rótunum til að breyta því viðhorfi sem er ríkjandi á meðal karla og kvenna, breyta því úr karllægu yfir í þennan hárfína farveg þar sem kvenlæg og karllæg sjónarmið sameinast og ráða bæði för. Annað má ekki vera hinu yfirsterkara. Hvernig förum við að því? Það er grunnurinn sem við þurfum að finna til að geta breytt þessu og náð árangri miklu fyrr en mörgum okkar finnst að við höfum náð. Þar liggur grunnurinn. Hann liggur ekki í því að konan vakni endilega á nóttunni til veikra barna frekar en karlinn. Hann liggur í því hvernig við náum að samræma þau ólíku sjónarmið sem ríkja þannig að bæði kyn ráði för og báðum kynjum finnist ábyrgðin á flestum sviðum vera þeirra.