139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára.

334. mál
[12:13]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég er á svipuðum slóðum og andsvarsveitandi á undan mér, hv. þm. Pétur H. Blöndal. Ég er með hugleiðingar tengdar þessari orðanotkun um karllægt og kvenlægt. Mér finnst þetta vekja mjög margar spurningar, ég velti hér upp hvort þessi hugtakanotkun sé hugsanlega einfaldlega orðin úrelt og farin að há okkur.

Ég er karl. Ég tek mjög virkan þátt í uppeldi barna minna og heimilisrekstri, þekki engan karl á mínum aldri sem gerir það ekki. Ég þekki engan karl hér inni, a.m.k. ekki á mínum aldri, sem lendir ekki í vandræðum ef fundir eru lengur en til kl. 5 og það þarf að sækja börnin á leikskóla og svoleiðis. Ég hef talað hér mjög mikið fyrir því að tekin séu upp fjölskylduvænni gildi í rekstri þessarar stofnunar. Lítið hefur gerst. Þetta gerir maður náttúrlega vegna þess að maður lendir ítrekað í vandræðum. Af hverju er t.d. ekki boðið upp á barnagæslu á Alþingi fyrst við erum að funda svona oft á kvöldin? Hvernig á maður að funda á kvöldin ef maður er með börn? Þetta er bara spurning sem Alþingi verður að svara og Alþingi getur ekki svarað og gerir ekkert í. Þetta er mér hjartans mál og ég velti því mikið fyrir mér. Mér finnst stundum eins og þessi hugtök karllægt og kvenlægt séu notuð í þeirri merkingu að allt sem er neikvætt varðandi fjölskyldumál sé karllægt og allt sem er til framfara sé kvenlægt. Þetta finnst mér bagalegt og ekki málstaðnum til framdráttar sem væri í þessu tilviki fjölskylduvænni vinnustaður.

Annað sem getur líka orðið til trafala í svona hugtakanotkun er ef orðið karllægt fer að mynda einhvers konar kerfislæga ástæðu sem er kannski ekki til staðar fyrir því að ekkert sé gert, að karllægt sé notað um eitthvert kerfi sem hefur orðið til sem við getum síðan ekki breytt. Þannig (Forseti hringir.) er það auðvitað ekki, við getum alveg breytt því.