139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára.

334. mál
[12:20]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek heils hugar undir síðustu orð hv. þingmanns, að það megi velta fyrir sér hugtakanotkuninni og tala um nýju viðhorfin. Þá skulum við sleppa bæði kven- og karl- og ræða ný viðhorf til jafnréttismála sem við sækjumst kannski öll eftir, að við nálgumst þetta út frá nýjum viðhorfum, líka út frá því að karl og kona og aðferðir, áherslur, sjónarmið beggja eigi að ráða för, hvort heldur er í uppbyggingu menntakerfisins, kennslu innan þess, í sveitarstjórnum, á Alþingi, að á öllum vinnustöðum séu þessar áherslur samræmdar og við komum út með ný viðmið og ný sjónarmið sem eru hvorki karllæg né kvenlæg.

Það er samt þannig í þessu samfélagi að orðin karl og kona ráða oft för. Ég tek hér eitt dæmi, frú forseti, mörgum finnst alveg skelfilegt þegar sagt er um íþróttamenn að þeir hafi spilað eins og kerlingar vegna þess að þá sé vísað til þess að þeir séu kvenkyns eða hálfgerðar lurðrur. (Gripið fram í.) Ég er íslenskufræðingur, frú forseti, (Gripið fram í: Ég líka.) og kerling þýðir lítill karl og var í fyrstu notað um hugsunarhátt karla. Þeir voru litlir karlar þegar ákveðinn hugsunarháttar réði ríkjum þannig að kerling er í sjálfu sér ekkert slæmt.

Þetta segir akkúrat líka hvernig þankagangurinn var. Við þurfum að breyta viðhorfum, frú forseti, um það getum við hv. þm. Guðmundur Steingrímsson verið sammála, og við þurfum að breyta viðhorfunum til þess að við náum hér samfélagi sem bæði verður (Forseti hringir.) fjölskylduvænna og þar sem kynin hafa nokkurn veginn jafna stöðu.