139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára.

334. mál
[12:22]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fagna þessari jafnréttisáætlun sem velferðarráðherra leggur hér fram til fjögurra ára. Í raun er þetta áætlun um viðhorfsbreytingu og leiðir til að leggja feðraveldið að velli og skapa samfélag sem einkennist af jafnrétti, mannréttindum og virðingu fyrir margbreytileika.

Í mínum huga eru jafnréttismál dauðans alvara. Það var misrétti kynjanna sem á sínum tíma leiddi til þess að ég sem ung stúlka fór að hafa afskipti af pólitík, enda eru þetta hin hápólitískustu mál og snúast um völd til að hafa áhrif á eigin aðstæður og samfélag og tækifæri til að afla sér tekna og fjármagns til að láta drauma sína rætast.

Ég er mjög ánægð með breytingarnar sem gerðar hafa verið á áætluninni. Hún er núna þemaskipt í stað þess að þulið sé upp eftir ráðuneytum hvað eigi að gera, og almennt verð ég að segja að mér finnst þetta jákvætt. Ég ætla frekar að koma inn á það sem ég hef efasemdir um eða mundi vilja gera breytingar á en tek fram að hér er mjög margt gott og það mun verða rætt í nefndinni og í nefndaráliti um þessa þingsályktunartillögu.

Ráðherranefndin er mjög jákvætt fyrirbæri sem rætt er um í 1. lið skýrslunnar. Þetta er þvert á ráðuneyti, jafnréttismálin eru ekki sérstök vinnumarkaðsmál eða velferðarmál, þau eru grundvallarmannréttindamál. Við höfum náð fram gríðarlegum réttarbótum til handa konum en það gengur mun hægar með viðhorfsbreytingu og þessi áætlun er hluti af að ná þeirri breytingu. Fræðsla og pólitískur vilji skipta þar öllu máli.

Ég sé að það er líka verið að reyna að skjóta styrkari stoðum undir jafnréttisfulltrúana í ráðuneytunum en það vita allir sem nálægt stjórnsýslunni hafa komið að það er mjög misjafnlega lagt upp úr starfi jafnréttisfulltrúanna og þeir hafa verið tiltölulega valdalausir og áhrifalausir innan sinna ráðuneyta þó að það séu að sjálfsögðu undantekningar á því. Það er mikilvægt að þeir fái bakhjarl í sérfræðingi Stjórnarráðsins í jafnrétti kynja og hjá Jafnréttisstofu.

Í 7. lið er fjallað um hlut kynja í nefndum og ráðum og það á hreinlega — nú segi ég þingheimi það — að stefna að 40:60 hlutfalli í nefndum og ráðum. Það á að fara að stefna að því. Það er lögbundin skylda ráðherra að tryggja að svo sé. Sem nefndarmaður í félags- og tryggingamálanefnd mun ég sannarlega beita mér fyrir því að þarna verði fastar að orði kveðið því að þetta er náttúrlega móðgandi að bera svona á borð fyrir löggjafann.

Þá komum við að því næsta sem mig langaði að drepa á sem er vinnumarkaðurinn. Kynbundinn launamunur er eitt grófasta birtingarform þeirra mannréttindabrota sem konur búa við í íslensku samfélagi og víða um lönd. Þetta er endalaust verkefni og það hefur mjög margt verið gert til þess að reyna að eyða þessum mun. Þó spyr maður sig, þegar maður les hér, að það sé nú einmitt vandi að það hafi kannski ekki verið nægur pólitískur vilji því að nú á bara launaumsjónarkerfi ríkisins að verða endurbætt tæknilega þannig að unnt verði að gera marktækar og reglulegar úttektir á launamun kvenna og karla í ráðuneytum og stofnunum ríkisins. Nú ætlum við bara, frú forseti, að vinda okkur í það verkefni. Hve lengi hefur það verið í lögum að það eigi að vera kynjajafnrétti? Nú er það svo að hæstv. velferðarráðherra er síst ábyrgur fyrir þessum brotalömum, svo það komi fram, en það er náttúrlega merkilegt að hugsa um pólitískan vilja og skoða svo markmiðin og sjá að það hefur ekki verið unnið að því með markvissum hætti af hálfu stjórnvalda að framfylgja jafnréttislögum.

Ég fagna sérstakri úttekt á fæðingarorlofi feðra. Ráðherra vitnaði í skýrslubeiðni nefndarmanna í félags- og tryggingamálanefnd frá vori 2010, enda teljum við mjög óheppilegt að lengra sé gengið í skerðingu fæðingarorlofs og teljum það í raun ókleift innan núverandi kerfis. Við þurfum jafnframt að gera áætlanir um hvernig við styrkjum aftur fæðingarorlofið þegar fer að ára betur. Ég geri ráð fyrir að við munum reyna að kveða eitthvað á um það varðandi þennan lið, ég mun a.m.k. beita mér fyrir því. Við skulum muna að hvergi í Evrópu eiga konur jafnmörg börn og á Íslandi nema í Tyrklandi. Við erum með 2,1 lifandi barn á hverja konu og atvinnuþátttaka íslenskra kvenna er sú hæsta í Evrópu. Fæðingarorlof hefur í sér hagræna hvata, gott fæðingarorlof, þó að auðvitað eigi grundvöllurinn að vera góð aðbúð barna í frumbernsku.

Svo eru hér margir jákvæðir þættir sem ég hef dokað við en ég ætla að fara yfir það sem ég tel að við þurfum að fara yfir, eins og ég sagði áður, þ.e. hlutur kvenna í stjórnum fyrirtækja og stofnana. Ráðherra kom inn á það í ræðu sinni að lögum um kynjakvóta hefði verið breytt frá og með árinu 2013 sem sá þingmaður sem hér stendur beitti sér sérstaklega fyrir og mér finnst að það eigi að vitna í það því að þetta verður hreinlega lögleg skylda þegar fram í sækir.

Hér er talað um aðgerðaáætlun gegn kynbundnu ofbeldi. Þarna er önnur mjög gróf birtingarmynd kynjamisréttis og feðraveldisins vil ég leyfa mér að segja. Ég fagna því að þarna sé bæði verið að leita leiða til að innleiða austurrísku leiðina en líka að körlum sé boðin meðferð til að losna úr vítahring ofbeldis. Þeir eru á einhvern hátt líka fórnarlömb þeirra aðstæðna sem valda því að þeir verða ofbeldismenn, sem er skelfilegt hlutskipti þó að okkur beri að sjálfsögðu skylda til að vernda fórnarlömbin og aðstoða, það er fyrsta verkið, en til þess að uppræta þetta vandamál verðum við líka að beina sjónum okkar að gerendunum.

Varðandi fræðsluna vil ég taka undir með hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur, menntun er grundvöllur undir viðhorfsbreytingar og það er spurning hvort við viljum reyna að finna einhverja hagræna hvata, og þá er ég ekki bara að tala um launin heldur í gegnum Lánasjóð íslenskra námsmanna, til að hvetja til meira kynjajafnréttis í starfsvali, það er mjög flókið mál en ég held að við ættum samt að athuga umræðu varðandi það.

Varðandi alþjóðastarfið fagna ég því að áfram eigi að leggja áherslu á ályktun 1325, að við munum beita okkur í því. Í þeirri áætlun eru konur einmitt teknar úr hlutverki fórnarlamba og settar í stefnumótandi hlutverk geranda. Það er þannig sem við viljum að allir samfélagsþegnar búi og hugsi, að þeir fái tækifæri til að vera gerendur í eigin lífi.

Mig langar að lokum að tala um kaflann Eftirfylgni og endurskoðun. Leggja á fram árlega skýrslu um stöðu verkefna samkvæmt framkvæmdaáætluninni fyrir ráðherranefnd um jafnrétti kynja og jafnréttisþing. Síðan á að endurmeta og eftir atvikum endurskoða áætlunina að tveimur árum liðnum frá samþykkt hennar. Ég held að sú skýrsla ætti að koma inn í þingið svo löggjafinn geti líka beitt sér í því að hún verði endurskoðuð á tveggja ára fresti. Ég veit að við eigum von á mörgum skýrslum í þingið. Við þurfum að taka umræðu um það í félags- og tryggingamálanefnd hvort ekki sé samt full ástæða til þess að löggjafinn fái skýrslu um framgöngu áætlunarinnar árlega og við gætum þá beitt okkur í því ef við teljum skorta á pólitískan vilja að áætlunin verði endurskoðuð.

Að lokum vil ég nefna að hér fylgir með skýrsla ráðherra til jafnréttisþings sem ég hlakka ákaflega mikið til að sækja núna í febrúar. Síðasta þing var mjög vel heppnað og sýndi að það er vaxandi áhugi á jafnréttismálum og þau eru tekin alvarlega.

Ég vil kvarta yfir því að hér eru tölfræðiupplýsingar frá árinu 2007 að megninu til en eitthvað þó frá árinu 2008. Það hefði verið allt í lagi að uppfæra þessar töflur enda eru þetta allt aðgengilegar upplýsingar.