139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára.

334. mál
[12:34]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrir þetta andsvar því að hún kom þar nákvæmlega inn á samþætt verklag varðandi þá ályktun sem boðuð er í þingsályktunartillögunni. Ég tek heils hugar undir með henni varðandi það. Ég held að það sé full ástæða til þess að félags- og tryggingamálanefnd sendi öðrum nefndum tillöguna og þá þeim nefndum sem ég held að við munum fara yfir hvort við teljum ástæðu til að senda hana til, þ.e. öllum nefndum eða sérstaklega þeim sem fjalla um þá málaflokka sem þarna eru undir. Mér sýndist tillagan ná yfir þá allflesta en við munum skoða það í nefndinni.

Varðandi jafnréttisfulltrúana þá sagði ég það einmitt í ræðu minni að ég teldi að þeir hefðu verið allt of veikir. Nú virðist eiga að gera einhvern skurk í því að jafnréttisáætlanir séu uppfærðar fyrir ráðuneytin. Jafnréttisfulltrúarnir ættu að eiga stuðning í sérfræðingi frá forsætisráðuneyti og Jafnréttisstofu en mér finnst athugasemd hv. þingmanns mjög góð. Ég held að eitt af því sem nefndin muni skoða mjög alvarlega sé hvernig við gerum jafnréttisfulltrúana að raunverulegum aðhalds- og stefnumótunaraðilum innan ráðuneytanna. Gerum við það með því að taka þá út úr hverju ráðuneyti og gera starf þeirra markvissara með staðsetningu á einum stað? Er sú tillaga sem lagt er upp með í þingsályktunartillögunni fullnægjandi eða þarf að bæta í hana? Það verður til skoðunar í nefndinni.