139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára.

334. mál
[12:40]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér fannst svar mitt til hv. þingmanns langt frá því innihaldsrýrt en ég ætla að játa það hér og nú að ég hef ekki farið í gaumgæfilega ígrundun á þessari stöðu.

Eins og ég sagði áðan í ræðu minni: Starfsval er augljóslega kynbundið enn sem komið er. Eins og sjá má í tölfræðinni sem fylgir þingsályktunartillögunni má líka sjá mjög miklar breytingar þó að þær séu mun minni í ákveðnum stéttum eins og kennarastétt, sem hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir benti á. Ég tók jafnframt upp að kannski ættum við að velta fyrir okkur að við þyrftum viðhorfsbreytingu, en vantar líka einhverja hagræna hvata? Hvaða fyrirmyndir hafa drengir og stúlkur í umhverfi sínu? Öll eigum við okkur fyrirmyndir þó að þær kunni að vera af gagnstæðu kyni. Við drögum dám af umhverfi okkar.

Um leið og ég viðurkenni að ég hafi ekki farið í djúpstæða skoðun á þessu máli þá hef ég rétt eins og annað samfélagslega meðvitað fólk verið hugsi yfir þessari þróun og tel að okkur beri skylda til að tryggja að sem flestir fái sem besta menntun til að auka velsæld samfélagsins og einstaklinganna sem í því búa.