139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára.

334. mál
[14:02]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Við höldum hér áfram umræðu um tillögu til þingsályktunar um áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára. Hæstv. ráðherra hefur leitt málið með miklum ágætum og er ástæða til að fagna ályktuninni í hvívetna enda mikilvægt og metnaðarfullt mál. Sá sem hér stendur í pontu telur sig vera ágætlega róttækan jafnréttissinna og er ekki vanþörf á að karlmenn skipti sér af þessum málum jafnt á við konur því að öll þjóðin þarf að leggjast á árarnar ef einhver árangur á að verða.

Mig langar að koma inn á nokkur atriði er varða þessa ályktun sem er í nokkrum liðum, frá A til H. Ég staldra þó fyrst og fremst við þann raunverulega árangur sem náðst hefur í þessu máli, jafnréttismálum, sem er þegar að er gáð langt frá því að vera nægur.

Frú forseti. Íslendingar geta státað af merkum áföngum í jafnréttissögu sinni, ef svo má segja. Liðlega 30 ár eru liðin frá því að Íslendingar kusu fyrstir lýðræðisþjóða konu sem forseta sinn og nú um stundir er kona forsætisráðherra Íslands, kona forseti Alþingis og kona forseti Hæstaréttar. Allir handhafar forsetavalds eru sem sé af kvenkyni og er það ágætt.

Ef við gægjumst hins vegar inn fyrir þennan ytri búnað, þessa augljósu áfanga sem orðið hafa á jafnréttisleið okkar, er margt athugavert í samfélagi okkar og jafnréttið er þar fjarri lagi. Ég vil sérstaklega staldra við launamun kynjanna en þar hefur okkur mistekist á undanförnum árum og á það jafnt við um fyrirtæki og stjórnendur þeirra hjá hinu opinbera, ríki og sveitarfélögum, og fyrirtæki á almennum markaði. Ég vil ganga svo langt, frú forseti, að segja að þetta sé lögreglumál því að enn er það svo að konur þessa lands, dætur okkar og mæður, eru með laun sem eru allt að því 38% lægri en karlmanna sem eru að vinna sambærileg störf. Þetta er hneisa, þetta er ólíðandi og það verður að taka á þessu með öllum ráðum. Ég beini því hér til hæstv. velferðarráðherra að hann leiti allra leiða til að minnka og helst eyða launamun kynjanna með þeim ráðum sem hann hefur tæk í ráðuneyti sínu.

Það er greint frá því hér á bls. 11 í þessari þingsálykunartillögu að launamunur kynjanna hafi, þegar litið er til heildarlauna, að jafnaði mælst 16,3% á landinu þegar könnun var gerð á því á vegum Félagsvísindastofnunar árið 2008, í góðærinu. Í öllu góðærinu var launamunurinn sem sé að jafnaði 16,3% en þegar horft er til launamunar á landsbyggðinni mældist hann í námunda við 30%. Eftir því sem ég best veit frá tölum Jafnréttisstofu á Akureyri hefur þessi launamunur úti á landi mælst allt að 38%, og það var í góðærinu. Það var 38% munur á launum fólks eftir því hvort viðkomandi var kona eða karl í sambærilegu starfi. Þetta er algjörlega ólíðandi.

Það er athyglisvert, frú forseti, að þegar þessi könnun Félagsvísindastofnunar frá 2008 var lögð fram var haft á orði að Byggðastofnun ætti að fara ofan í málið. Eftir því sem ég best veit hefur hún ekki gert það. Ég beini því sérstaklega til ráðherra og reyndar félags- og tryggingamálanefndar að hún láti athuga hvort Byggðastofnun hafi yfirleitt gert athugun á þessum gríðarlega launamun sem er fyrir hendi úti á landi og mældist allt upp undir 38%. Ef svo er ekki hlýtur að fara fram rannsókn á því, annaðhvort á vegum þingsins eða framkvæmdarvaldsins, hvers vegna þessi launamunur er svo viðvarandi, hvernig má bæta úr honum, eins og kemur reyndar fram hér með margvíslegum tillögum í þessari þingsályktunartillögu, og hversu langt megi ganga til að leiðrétta þennan mun. Í þessu efni langar mig að vera helst eins róttækur og hugsast getur því, eins og ég gat um áðan, þá er það nánast lögreglumál að dætur þessa lands og mæður þurfi að sætta sig við þennan gríðarlega launamun fyrir sambærilega vinnu. Við verðum að taka á því með öllum tiltækum ráðum.

Þar langar mig reyndar líka til að koma inn á leiðir til að bæta samfélag okkar hvað allt ytra umhverfi atvinnunnar snertir. Þar á ég við sveigjanlegan vinnutíma, þar á ég við almenningssamgöngur, þar á ég við samstarf skóla og þeirra sem reka ýmiss konar tómstundir. Það er einu sinni svo að samfélagið gerir það ekki auðvelt fyrir fjölskyldufólk, og þar af leiðandi konur, að stunda vinnu. Nú skyldi einhver ætla að ég væri talsmaður þess að konur annist börn frekar en karlar, en þegar maður lítur í tölfræðina og horfir á það mynstur sem blasir við hér á Íslandi er það nú einu sinni svo að rösklega 15% fólks sem er með börn eru einstæðar mæður en karlar eru þar 1,3%. Í langflestum tilfellum þar sem um einstæða foreldra er að ræða eru það einstæðar mæður. Hlutskipti þessa hóps sem er stór á Íslandi, 15 af hundraði, er á þann veg að þar á fólk mjög erfitt með að bæta við sig vinnu vegna þess að öll ytri umgerð samfélagsins er á svig við vinnuna. Vinnan er ekki nógu sveigjanleg, almenningssamgöngur af skornum skammti og samstarf skóla og tómstundageirans er lítið eða ekkert. Á þessu þarf að taka.

Ég vil að lokum, frú forseti, heita á ráðherra og félags- og tryggingamálanefnd að reyna að finna öllu róttækari leiðir en fram koma í þingsályktunartillögunni til að taka á þessum téða launamun kynjanna. Í þingsályktunartillögunni er talað um einhvers konar gátlista til fyrirtækja á hinum almenna markaði, að það sé hægt að beina ákveðnum tilmælum til fyrirtækja á vegum hins opinbera. Ég held að það þurfi að gera mun betur í þessu efni og ég sting hér með upp á því að fólk úti á hinum almenna vinnumarkaði, sem hefur lægri laun sökum kynferðis, geti í auknum mæli leitað réttar síns, geti með einhverju móti leitað til umboðsmanns eða einhvers konar úrvinnslukerfis, dómskerfis, til að fá úr málum sínum skorið. Enn þann dag í dag árið 2011 er það svo að konur á besta aldri (Forseti hringir.) hér á Íslandi eru að vinna við hlið karla í sambærilegum störfum með langtum lægri laun og það er óþolandi.