139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára.

334. mál
[14:13]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Það eru komin 36 ár frá því að kvennafrídagurinn var haldinn, þetta er orðinn heill mannsaldur. Ég batt miklar vonir við að þá yrði breyting á því greinilega og augljósa misrétti kynjanna sem verið hefur á Íslandi alla tíð. Eilítið hefur þokast en samt allt of hægt.

Nú er það svo, frú forseti, að ég hef haldið ótalmargar ræður um jafnréttismál kynjanna. Jómfrúrræða mín fjallaði meira að segja um fæðingarorlofið sem tekið var upp löngu seinna. Þar gat ég um misréttið sem þá var, að konur fengu fæðingarorlof en karlar ekki. Karlar voru þar af leiðandi ódýrari fyrir atvinnulífið en konur og ég taldi að það væri ástæðan fyrir launamisrétti kynjanna.

Fæðingarorlofið var merkilegt lagafrumvarp sem kom fram þegar Sjálfstæðisflokkurinn var með forustu í ríkisstjórn. Ég taldi að þá mundi misréttið lagast en það gerðist ekki, ekki í þeim mæli sem ég átti von á.

Í öllum þessum ræðum hef ég tjáð mig um sömu hlutina. Það er leiðinlegt að endurtaka sig. Ég geri það helst ekki en ég ætla samt að falla í þá gryfju. Ég verð að gera það því að ef ég endurtæki mig ekki mundi ég ekki segja neitt, ég er búinn að segja svo margt um þetta. Við megum ekki gefast upp þó að við þurfum að endurtaka okkur, þó að við þurfum að tala aftur og aftur um sömu hlutina.

Ég held að ein af mistökunum sem menn gera, ég held að sumir séu jafnvel farnir að sjá það, séu að telja mikilvægt að telja hausa. Ef það eru jafnmargar konur í þessari nefndinni og hinni nefndinni og karlar að þá sé allt í lagi. Ég tel að það sé ekki rétt, ekki ef menn gefa sér fyrir fram að það eigi að vera jafnmargar konur í einhverri nefnd, ráði eða stjórn.

Þetta er spurningin um það af hverju menn eru í þessari nefnd. Ef menn eru þvingaðir vegna þess að menn vilja geta talið hausa og telja að þá sé allt komið í lag, þá er það ekki. Það er einhver ástæða fyrir því að konur eru ekki í sama mæli í stjórnum hlutafélaga og karlar. Það er einhver ástæða fyrir því að konur mæta ekki á aðalfund Seðlabankans eins og karlar. Ég hef alltaf tekið aðalfundinn þann sem óvísindalegan mælikvarða á jafnrétti kynjanna af því að á fund Seðlabankans mætir, við skulum segja í einhverjum skilningi, rjóminn af fjármálalífi landsins. Þangað koma mektarmenn og það eru yfirleitt karlmenn, það er miður.

Ég held að vandinn liggi miklu dýpra og við þurfum að finna út af hverju hann stafar. Af hverju veljast karlmenn til að fara á sjóinn? Jú, menn segja strax: Konur geta ekki farið frá börnunum. Og þá spyr maður sig: Af hverju geta konur ekki farið frá börnunum? Vegna þess að karlmenn eru ekki vanir að annast börn.

Þetta er líka skekkja í hugsun. Góð kona sem ekki má renna niður færi án þess að það bíti á, (Gripið fram í.) af hverju skyldi hún ekki vera sjómaður? Þá segja menn: Það eru vaktir. Bíðum við, er það eitthvað sérstakt? Geta konur ekki staðið vaktir? Þær gera það á sjúkrahúsunum. Þá talar enginn um að standa þurfi vaktir á sjúkrahúsunum, í umönnuninni, nei, nei.

Ég skil ekki þennan kynjamismun í vali á starfi. Einhvern tíma sagði ég þingmönnum frá afmælisveislu sem ég hafði verið í. Það var afmælisveisla hjá fimm ára barni og því var gefin greiða og dúkka, allt sem sagt bleikt. Það var einnig dúkkuhús. Svo spurði ég hv. þingmenn: Af hvaða kyni skyldi barnið hafa verið? Auðvitað var þetta stúlka. Af hverju skyldi hún fá allt þetta kvendót sem í rauninni er að búa hana undir lífið? Er ekki einmitt verið að búa til kynjahlutverkið? Ég hef alltaf gefið andstætt. Ég gef stúlkum bolta og bíla. Ég gef strákum hunda og tuskudýr. Það er ekki voðalega vinsælt hjá öllum. Á endanum er heldur betur leikið með fótboltana sem ég gef þó að það séu stúlkur, að sjálfsögðu.

Ég held að þarna sé vísir að vandanum sem við glímum við. Það eru fordómar. Það eru fordómar karlmanna gagnvart konum. Það eru fordómar kvenna gagnvart konum og það eru fordóma kvenna gagnvart sjálfum sér. Frú forseti sagði áðan, ef ég má vitna í það, að hún hefði fengið karllægt uppeldi því að hún hefði sótt fram. Það er ekkert karllægt. Ég tel að konur ættu líka að geta sótt fram. Það á ekki að heita karllægt.

Ég mundi gjarnan vilja að menn skoðuðu þennan vanda. Af hverju eru konur í láglaunastörfum? Af hverju sækja þær í þau? Hvers vegna langar einhvern til að vinna við störf sem eru illa borguð? Af hverju fara þær ekki í störf sem eru vel borguð? Af hverju eru konur svona lítið í raungreinum, stærðfræði og verkfræði? Hefur einhver svarað því? Þetta eru fordómar. Ég hef sjálfur kennt stærðfræði og þá segja stúlkurnar: Ég get ekkert í stærðfræði, ég er jú kona og þar með er málið afgreitt. Ef þær segðu við sjálfar sig: Ég er kona og þess vegna get ég verið góð í stærðfræði þá mundu þær líka vera góðar í stærðfræði. Þetta er nefnilega viðhorf manna gagnvart sjálfum sér og hvers vænst er af fólki.

Við horfum upp á aðra þætti sem eru að mínu mati í öfuga átt. Fjöldi kvenna í háskólum er vaxandi og hlutfall kvenna sem útskrifast er vaxandi og komið langt upp fyrir karlmenn. Það segir mér að í framtíðinni gætum við þurft að glíma við öfugt vandamál. Við þurfum líka að gæta að því vegna þess að þegar ungur karlmaður fer ekki í háskóla þó að hann geti það, því brottfall er allt of algengt hjá karlmönnum í framhaldsskóla, þá vannýtum við þá hæfileika fyrir hönd þjóðarinnar.

Það er nefnilega þannig að jafnrétti er í rauninni hagsmunamál fyrir utan að vera réttlætismál. Að sjálfsögðu vil ég að dætur mínar njóti jafnréttis á við syni mína, það er réttlætismál. En þetta er líka efnahagsmál. Þegar þjóðin nýtir ekki hæfileika hvers einstaklings, af því að hann er kona, þá tapar þjóðin í heild sinni. Ef lúsfiskin kona fer ekki á sjóinn af því að hún er kona þá tapar þjóðfélagið á því. Hún hefði veitt betur en amlóðinn, karlmaður sem veiðir aldrei pöddu.

Við eigum að nýta alla hæfileika sérhvers einstaklings. Það gerum við með því að stuðla að því að fólk hafi jafna möguleika til að fara í hvaða starf sem er. Við eigum að skoða betur af hverju fólk fer í ákveðin störf eftir kyni. Ég held að þar sé grunnurinn að því að við búum enn við mikið ójafnrétti milli kynjanna. Það sýna skýrslur og heimsókn mín á aðalfund Seðlabankans.