139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

skýrsla forseta um öryggismál tölvukerfis Alþingis.

[15:01]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir þá skýrslu sem hún gaf hér áðan og þær upplýsingar sem þar komu fram og ég hygg að sé mikilvægt að forsætisnefnd fari rækilega yfir þetta mál. Ég tek undir það sem sagt hefur verið um það hér en mjög margar spurningar vakna í þessu máli. Í fyrsta lagi er það vægast sagt óþægilegt að tæpu ári eftir að þessir atburðir urðu er þingmönnum loksins orðið þetta kunnugt og það af fjölmiðlum landsins. Það kemur líka á óvart og ég hjó eftir því í skýrslu hæstv. forseta að hæstv. forsætisráðherra hafi verið kunngert um málið en ekki öðrum formönnum flokka eða þingmönnum sem hér starfa. Það sem er óþægilegt við þetta mál umfram það sem hér hefur komið fram er að það er verið að ráðast ekki á tölvukerfið utan þingsins heldur innan veggja Alþingis. Það er ekki verið að ráðast á tölvukerfið úti í bæ eða hakka inn í það eins og sagt er, heldur er farið inn í þinghúsið, inn á skrifstofur þingmanna og þar er þessu komið fyrir. Það hefði verið hægt að koma hverju sem er fyrir þar. Ég hef ekki orðið vör við það, það kann að vera athugunarleysi hjá mér, að nokkuð hafi breyst á þessu ári í því hvernig við þingmenn göngum um þinghúsið eða við höfum sérstaklega verið vöruð við því, t.d. áminnt um að læsa skrifstofum okkar, mörg okkar hafa opnar skrifstofur, eða hvernig gengið er um skrifstofu Alþingis. Ég skil ekki af hverju þeir þingmenn sem eru með skrifstofur á 5. hæð voru ekki spurðir um mannaferðir. Ég skil ekkert í því þegar lögreglan rannsakar málið af hverju ekki er farið ofan í það hvernig gengið er um húsið. Þetta eru allt spurningar sem mér finnst brýnt að fá svör við. Og númer eitt, tvö og þrjú, þetta er ekki bara árás á tölvukerfi Alþingis, þetta er bein innrás inn á Alþingi sjálft, á skrifstofur þingmanna, á starfsaðstöðu þeirra. Og með því er þetta að sjálfsögðu bein árás á Alþingi (Forseti hringir.) Íslendinga.