139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

skýrsla forseta um öryggismál tölvukerfis Alþingis.

[15:18]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil í upphafi þakka forseta fyrir þá skýrslu sem hún gaf áðan og ég tek jafnframt fram að um afar alvarlegt mál að ræða. Ég tek undir það sem margir hv. þingmenn hafa sagt í dag að hér er í raun um tilraun til árásar ef ekki hreinlega árás á þingið að ræða og við þurfum að skoða þetta í því ljósi. Þingið starfar á mjög mörgum stöðum í miðbænum, það er með húsnæði á mörgum stöðum og m.a. þess vegna hefði verið afar mikilvægt að láta vita á öllum þessum stöðum að um tilraun til árásar á þingið hefði verið að ræða, þannig að allir þingmenn og allir starfsmenn þingsins hefðu getað sýnt aukna árvekni í störfum sínum og umgengni um gögn og þess háttar. Þingmenn hafa haft þann sið, og munu vafalítið hafa áfram sem er vel, að halda fundi með gestum sínum á og við skrifstofur sínar (Gripið fram í.) og það er sjálfsagt, en ég hef ekki orðið var við að þær heimsóknir séu sérstaklega skráðar eða erindi séu sérstaklega skráð eða annað þess háttar. Í ljósi þessara atburða finnst mér að við þurfum virkilega að velta því fyrir okkur hvort ekki þurfi að gera slíkt, a.m.k. upp að einhverju lágmarki. En málið allt þarf að taka föstum tökum, það þarf að rannsaka það betur og upplýsa þingmenn og starfsmenn í smáatriðum og tryggja að öryggi starfs og starfsmanna á þinginu verði áfram tryggt.