139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

staðgöngumæðrun.

310. mál
[16:26]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Ég er sammála hv. þingmanni. Ég held að umræðan um þetta mál sé í reynd fullþroskuð. Það er búið að skilgreina álitaefnin fyrir langalöngu. Ákveðin álitaefni hafa komið upp varðandi það mál sem hér hefur verið tengt umræðunni, mál Jóels litla á Indlandi. Á þeim álitaefnum er t.d. tekið í greinargerð hv. þingmanns og eins og kom fram í máli hennar áðan er búið að hugsa þetta mál til þrautar, þ.e. það er búið að skilgreina hvaða vandamál geta komið upp og með hvaða hætti á að bregðast við þeim.

Ég tek líka undir það sem kom fram í framsögu hv. þingmanns, því fylgir oft mikil sorg að horfast í augu við barnleysi, hvað þá að sjá leiðir sem eru færar en vera meinað að fara þær vegna skorts á lagaramma. Ég tel fyllilega tímabært að setja lög um þetta, setja skýrar reglur og ég tek algjörlega undir það líka sem kom fram í framsögu hv. þingmanns að umbúnaðurinn á að vera sá að menn geri þetta ekki í hagnaðarskyni.

Það er ýmislegt fleira sem kemur fram hjá hv. þingmanni í greinargerð og í máli hennar sem sýnir að hún og þau sem að þessum málum vinna hafa hugsað þetta til þrautar. Það kemur mér ekki á óvart. Þessi umræða hófst fyrir töluvert löngu. Mig minnir að það séu tíu ár frá því að þetta var fyrst rætt á þinginu. Eins og hv. þingmaður sagði kom skýrt fram að þingið taldi, þó að mér fyndist það á þeim tíma vera mjög velviljað þessari úrlausn, frekari umræðu þurfa í samfélaginu. Nú liggur hún fyrir og kannski má segja að lokahnykkurinn hafi verið tekinn í þeirri umræðu í tengslum við mál Jóels litla. Því segi ég að sjálfsagt er að ræða þetta og róa fyrir allar víkur en mér sýnist að umbúnaður málsins eins og hann kemur fram í greinargerð og ræðu hv. þingmanns sé þannig hnýttur núna að það sé eiginlega búið að leysa hin siðferðilegu álitaefni. Þá er einungis eitt eftir og það er að taka ákvörðunina.