139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

staðgöngumæðrun.

310. mál
[16:43]
Horfa

Flm. (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að við þurfum alltaf að gæta þess að girt verði fyrir álitamál. Það er skiljanlegt að Læknafélagið hafi áhyggjur af því að það verði ekki gert nógu vel. Þess vegna ítreka ég það eina ferðina enn að við munum setja þannig skilyrði að við getum tryggt það sem best. Vegna orða þingmannsins um félagsráðgjöf varðandi fóstureyðingar og annað er hugsunin einmitt sú að í kringum þetta verði sett upp teymi sérfræðinga, sálfræðinga, félagsráðgjafa og lögfræðinga, til að hjálpa til við lagalegu úrræðin sem þurfa að liggja fyrir.

Það er rétt af því það hefur ekki komið fram í þessari umræðu að breyta þarf fleiri lögum en þeim sem ég legg hér til. Það þarf að breyta barnalögum. Það þarf að breyta lögum um ættleiðingar. Það þarf að breyta lögum um fæðingarorlof til að tryggt sé að staðgöngumóðirin fái líka fæðingarorlof til þess að jafna sig eftir fæðingu og allt það sem hún þarf að ganga í gegnum. Þegar þetta er komið — og ég leyfi mér að vera bjartsýn og segja þegar — í gagnið verður þetta teymi þannig að fólk getur komið á staðinn, það þarf að undirgangast próf, fara í gegnum stýrð skilyrði til að athuga hvort það uppfylli þær kröfur sem gerðar eru og síðan þegar það er yfirstaðið verður því leiðbeint í gegnum ferlið til að tryggja hag allra sem best.