139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

staðgöngumæðrun.

310. mál
[17:07]
Horfa

Flm. (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hennar innlegg. Ég treysti henni mjög vel sem formanni heilbrigðisnefndar til að fara vel yfir málið og skoða rök með og á móti. Líkt og með hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur hef ég fullan skilning á því og virði það að hún hafi ekki gert upp hug sinn. Ég treysti því að umræðan og upplýsingar þær sem koma fram verði til þess að aðstoða þingmanninn í því.

Hv. þingmaður talaði um þau tilfelli þegar ekki væri hægt að fá staðgöngumóður í náinni fjölskyldu eða vinahópi viðkomandi og vísaði þá til þess að fólk þyrfti að leita út fyrir landsteinana. En það er þannig núna að fjölmörg tilfelli eru um að fólk hafi fengið konur sem það þekkir ekki endilega fyrir fram til að taka þetta að sér. Við vitum að auglýsingar hafa birst í blöðum þar sem auglýst er eftir þessu í velgjörðarskyni, við erum alltaf að tala um þetta í velgjörðarskyni. Það hafa komið upp tilfelli þar sem fólk hefur fengið konur sem það hefur ekki þekkt áður til þess að taka svona að sér og það hefur gengið vel.

Ég hvet hv. þingmann til að fara inn á heimasíðu stadganga.com þar sem fyrir liggur gífurlegt magn af upplýsingum. (Forseti hringir.) Þar á meðal má nefna fínar rannsóknir þar sem börnum, foreldrum og staðgöngumóður hefur verið fylgt eftir um margra ára skeið. (Forseti hringir.) Þá er hægt að sjá hvaða áhrif þetta hefur haft á viðkomandi.