139. löggjafarþing — 63. fundur,  25. jan. 2011.

Magma.

[14:17]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég var á fjölmennum fundi Samtaka atvinnulífsins í Stapanum í gær, enn einum fundinum í Stapanum um atvinnumál á Suðurnesjum. Þar kom fram í máli forstjóra Norðuráls og forstjóra Magma að í fyrsta sinn á þeirra langa ferli í orkugeiranum sem telur rúmlega áratug, a.m.k. í öðru tilfellinu, fari nú erlend fjármögnunarfyrirtæki fram á það að pólitískt óþægindaálag sé sett ofan á fjármögnun sem íslensk fyrirtæki eru að leita eftir.

Af hverju er þetta? Jú, vegna pólitískrar óvissu og pólitísks óstöðugleika á Íslandi. (Gripið fram í.) Hér eru í fyrsta sinn erlendir fjárfestar sem eru að skoða fjárfestingu á Íslandi að hugsa um að kaupa sér tryggingu vegna pólitískrar óvissu á Íslandi.

Hæstv. fjármálaráðherra lét hafa eftir sér 18. janúar að það væri stormur í vatnsglasi að hafa áhyggjur af því að eignarnáms- og þjóðnýtingartal hæstv. forráðamanna ríkisstjórnarinnar hefði einhver áhrif á erlenda fjárfestingu á Íslandi og langt í frá að það mundi fæla frá fjárfesta til Íslands.

Nú langar mig til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra, í ljósi ummæla þessara tveggja einstaklinga sem eru einmitt að reyna að koma með erlenda fjárfestingu til landsins, hvort hann sé enn þá sömu skoðunar. Er þetta enn þá stormur í vatnsglasi?

Síðan árétta ég líka það sem mikið var lagt út af í gær þegar verið var að tala um þetta verkefni, álverið í Helguvík, að það er fyrst og síðast pólitísk óvissa á Íslandi (Forseti hringir.) og stefna a.m.k. annars ríkisstjórnarflokksins gegn þessu verkefni sem hefur tafið það. Framkvæmd þess gæti hins vegar komið í veg fyrir að 1.600 Suðurnesjamenn gengju um atvinnulausir.