139. löggjafarþing — 63. fundur,  25. jan. 2011.

verðhækkanir á eldsneyti.

[14:39]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Ég hlýt að lýsa vonbrigðum mínum með svar hæstv. fjármálaráðherra. Hann ætlar ekki að gera neitt til að grípa til aðgerða til að lækka eldsneytisverð í landinu þrátt fyrir að hæstv. forsætisráðherra sé auðvitað í lykilaðstöðu til að grípa til aðgerða til að lækka eldsneytisverð vegna þess að ríkið tekur langstærstan hluta af bensínverðinu til sín í formi skatta.

Ég mótmæli því að hægt sé að vísa til eldsneytisverðs í öðrum nálægum löndum. Við verðum að horfa til þess að þar varð ekki efnahagshrun. Hér varð efnahagshrun og fólk hefur orðið fyrir gríðarlegri kaupmáttarrýrnun. Við þær aðstæður, þegar eldsneyti hækkar svona gífurlega, hlýtur maður að gera kröfu til þess að þeir sem taka mest til sín af verði eldsneytis sjái að sér og dragi í land. Því miður virðist hæstv. fjármálaráðherra ekki ætla (Forseti hringir.) að grípa til slíkra aðgerða. Það eru auðvitað vond tíðindi fyrir allan almenning í landinu sem berst í bökkum og þarf einhvern veginn að bregðast við en sumir (Forseti hringir.) eru ekki í aðstöðu til að gera það, því miður.