139. löggjafarþing — 64. fundur,  25. jan. 2011.

úrskurður Hæstaréttar um kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[17:17]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Niðurstaða Hæstaréttar hlýtur að valda okkur öllum vonbrigðum enda nær einróma niðurstaða þingsins að efna til stjórnlagaþings á grundvelli þeirra laga sem samþykkt voru. Allir flokkar studdu lögin einum rómi, nema Sjálfstæðisflokkurinn, en aðeins einn þingmaður greiddi atkvæði gegn gildandi lögum. Ákvörðun Hæstaréttar gengur fyrst og fremst út á aðfinnslur við framkvæmd kosninganna en ekki lagagrundvöllinn sjálfan. Flestar má rekja til ótrúlegs fjölda frambjóðenda og mismunandi mats stjórnvalda og Hæstaréttar á heimildum umsjónarmanna kosninganna til að bregðast við þeim óvenjulegu aðstæðum.

Þau atriði sem fundið var að við framkvæmd kosninganna voru þessi:

1. Kosning ekki talin leynileg þar sem hugsanlega mætti rekja númer kjörseðils til kjósenda. Þessi breyting kom inn sem breytingartillaga landskjörstjórnar eftir að upphaflegu lögin höfðu verið samþykkt.

2. Pappírsskilrúm geti ekki talist kosningaklefar í skilningi laga.

3. Reglum um að kjósandi mætti brjóta seðil saman áður en hann færi í kassa var ekki fylgt. Reglan átti að tryggja leynd. Tveir dómarar voru ekki sammála þessari niðurstöðu.

4. Kjörkassar töldust ekki uppfylla skilyrði laga um að unnt væri að læsa þeim.

5. Umboðsmenn voru ekki viðstaddir talningu.

6. Talning fór ekki fram fyrir opnum tjöldum.

Rétt er að hafa í huga að ekkert af ofangreindum athugasemdum hefur komið upp sem raunverulegt vandamál í framkvæmdinni að ég best veit samkvæmt upplýsingum innanríkisráðuneytisins sem ég fundaði með í dag. Enginn hefur talið að leyndin hafi verið rofin í raun. Enginn hefur haldið því fram að kjörkassar hafi verið opnaðir, enda hefðu merki um slíkt verið greinileg og ekki er vitað um nein tilvik þess að umboðsmönnum frambjóðenda hafi verið neitað um að vera viðstaddir talningu.

Mikilvægt er að forsætisnefnd Alþingis fundi svo fljótt sem auðið er með landskjörstjórn og innanríkisráðuneytinu, en þessir aðilar fóru með framkvæmd kosninganna.

Við stöndum nú frammi fyrir því að taka ákvarðanir um næstu skref. Þau geta verið nokkur og mikilvægt er að þingið íhugi möguleikana í þessari stöðu. Eins og ég sagði geta þeir verið nokkrir. Einn er að hætta við stjórnlagaþingið sem mér finnst alls ekki koma til greina. Annar að leiðrétta ágallana í framkvæmdinni og kjósa aftur með kostnaði sem því fylgir. Hugsanlega mætti líka veita Alþingi heimild með lögum til að kjósa 25 fulltrúa á stjórnlagaþingið, mögulega þá sömu og þjóðin hefur þegar kosið, meti Alþingi lýðræðislegt umboð þeirra fullnægjandi. Án efa eru fleiri leiðir mögulegar í stöðunni.

Í öllu falli hljótum við að leita allra leiða til að stjórnlagaþingið verði haldið og það mikilvæga verkefni sem því var falið með lögum verði klárað. Um það höfum verið að mestu sammála hingað til og ég vona að sú samstaða haldi áfram. Menn eiga ekki að reyna að nýta sér þessa uppákomu til að slá pólitískar keilur. Stjórnlagaþingið var tæki þjóðarinnar til að móta nýja stjórnarskrá og stjórnlagaþingið tökum við ekki frá þjóðinni. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Mikilvægt er að menn horfi fram á við og leiti leiða til að leysa málið. Ekki verður horft fram hjá því að verkefnið sem landskjörstjórn stóð frammi fyrir var afar flókið og óvenjulegt, ekki síst vegna fjölda frambjóðenda. Skynsamlegast virðist að forsætisnefnd fari yfir málið og ákveði næstu skref, enda hafa forsætisnefnd, landskjörstjórn og innanríkisráðuneytið haft með höndum undirbúning stjórnlagaþingsins samkvæmt ákvörðun Alþingis.