139. löggjafarþing — 64. fundur,  25. jan. 2011.

úrskurður Hæstaréttar um kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[18:09]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Mér finnst nú hálfdapurlegt að hlusta á það hvað hér hefur hlakkað í íhaldinu við það að Hæstiréttur hefur ógilt kosningu til stjórnlagaþings. Það var ekki annað að heyra. Það er líka alveg ljóst að stjórnlagaþing hefur alltaf verið eitur í beinum íhaldsmanna. Mér finnst það líka dapurlegt að hér sé talað um tilraunastarfsemi með stjórnarskrána. Hvers vegna var stjórnlagaþing sett á laggirnar? Já, hvers vegna var það sett á laggirnar? Var það ekki vegna þess að þingið hefur gefist upp á að breyta stjórnarskránni? (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Nei, nei.) Þingið hefur áratugum saman, oft með íhaldið í broddi fylkingar því það hefur verið allt of lengi hér við stjórnvölinn, gefist upp á að breyta stjórnarskránni. (Gripið fram í.) Þetta voru helstu lýðræðisumbætur sem fólkið kallaði á eftir hrun, það var stjórnlagaþing. (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Búið að gera tilraun til þess …) Og það var íhaldið sem kom í veg fyrir það í tíð minnihlutastjórnar Vinstri grænna og Samfylkingarinnar að komið væri á stjórnlagaþingi sem væri bindandi. Reynum að muna það. Það er alveg ljóst að (Gripið fram í.) áratuga barátta við að breyta stjórnarskránni var tilraunastarfsemi sem ekki tókst.

Ég verð að segja að við getum ekki gefið fólkinu og þjóðinni langt nef með því að hætta við að hafa stjórnlagaþing. (Gripið fram í.) Ég skora á þá hér inni sem vilja hafa stjórnlagaþingið og koma því á að sameinast um að finna leiðir til þess að stjórnlagaþingið verði ekki tekið af þjóðinni. (Gripið fram í: Heyr.) Það er það sem þjóðin er (Gripið fram í.) að kalla eftir. (JónG: Þjóðin svaraði þessu með kosningaþátttöku.) Það er auðvitað fráleitt, fráleitt (Gripið fram í.) eins og hér er verið að reyna að halda fram að vísa málinu og ábyrgð á því á hendur forsætisráðherra og ríkisstjórn eins og stjórnarandstaðan er að reyna að gera. (Gripið fram í.) Við vitum það ef þingmenn lesa niðurstöðu dómstólanna að það liggur fyrir að athugasemdir Hæstaréttar lúta ekki að upphaflegu frumvarpi ríkisstjórnarinnar heldur fyrst og fremst að framkvæmdinni og það er einungis eitt atriði sem á rætur að rekja til ákvæða laganna um stjórnlagaþing og það kom inn í lögin að ósk landskjörstjórnar.

Þeir sem hér gagnrýna framkvæmdina, áttu þeir ekki líka sæti í þeirri nefnd sem fjallaði um stjórnlagaþingið? Jú, víst áttu þeir sæti þar. Bentu þeir á þessa ágalla sem nú hafa komið fram (Gripið fram í: Já.) hjá dómstólunum? Bentu þeir á þá alla? (Gripið fram í: Já.) Hvers vegna voru þeir þá ekki lagfærðir? (Gripið fram í: Þú …)

Ég segi, það síðasta sem við eigum að gera er að gefast upp við þetta stóra lýðræðismál sem þjóðin er að kalla eftir. (Gripið fram í.) Sem þjóðin er að kalla eftir. (Gripið fram í: … kalla eftir þessu.) Ég skora á þingmenn að koma sér saman [Frammíköll í þingsal.] — ég veit að íhaldið er órólegt hérna af því þeir vilja ekki stjórnlagaþing, þeir eru skíthræddir um að þá verði komin ákvæði sem þjóðin hefur lengi kallað eftir og barist fyrir, sem eru að auðlindirnar verði í þjóðareign. (Gripið fram í: Nei.) [Háreysti í þingsal.] (Gripið fram í: Það er enginn ágreiningur …) Og mörg fleiri atriði sem þjóðin hefur (Gripið fram í.) verið að kalla eftir (Gripið fram í.) sem ekki hefur komist á vegna andstöðu íhaldsins. (Gripið fram í.) Það er staðreyndin sem við stöndum frammi fyrir. [Frammíköll í þingsal.] (Forseti hringir.) Ég bið íhaldið að manna sig upp í það með hluta stjórnarandstöðunnar (Gripið fram í.) og stjórnarliðanna (Gripið fram í.) að færa þjóðinni það stjórnlagaþing sem hún hefur kallað eftir í marga mánuði. (Gripið fram í.) Gefumst ekki upp við það verk. Setjumst yfir það að finna lausn á þessu vandamáli sem hér er komið upp. (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Heyr, heyr.)