139. löggjafarþing — 65. fundur,  26. jan. 2011.

störf þingsins.

[14:11]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Í tilefni af þeirri umræðu sem hér er hafin vegna niðurstöðu Hæstaréttar í málinu er varðar kosningar til stjórnlagaþings er eðlilegt að fram fari umræða um það á þessum vettvangi og víðar hver verði næstu skref. Hér er auðvitað reynt að draga málið í þann farveg að kalla eftir að einhverjir tilteknir axli ábyrgð og hér er auðvitað reynt að gera málið tortryggilegt á allan hátt. Í mínum huga er í sjálfu sér einfalt að svara því að þegar Hæstiréttur kemst að þeirri niðurstöðu að það hafi verið slíkir ágallar á framkvæmd kosninga verði sú kosning einfaldlega endurtekin. Það er hið einfalda svar við þeirri spurningu.

En fleiri spurningar svífa að sjálfsögðu yfir vötnunum og sem frá mínum bæjardyrum séð eru miklu þýðingarmeiri í þessari umræðu. Það er spurningin um hugsunina eða hugmyndina um stjórnlagaþingið sjálft. Það er pólitískt álitaefni. Raunar má halda því fram að málareksturinn fyrir Hæstarétti hafi verið meira á pólitískum nótum en lagatæknilegum ef marka má viðbrögð þeirra sem hófu málareksturinn. Úr röðum þeirra koma að minnsta kosti þau viðbrögð eftir niðurstöðu Hæstaréttar. En það er ekki aðalmálið í þessu samhengi að mínu mati heldur spurningin: Styðjum við þá lýðræðisnýjung sem felst í stjórnlagaþinginu eða styðjum við hana ekki? Það er spurning sem stjórnmálaöflin verða fyrst og fremst að svara.

Við öxlum best ábyrgð á því sem aflaga fór í þessari kosningu með því að endurtaka kosninguna. Það er það skref sem frá mínum bæjardyrum séð á að taka og svarar um leið spurningunni: Viljum við styðja hugmyndina (Forseti hringir.) um stjórnlagaþing og þá lýðræðisnýjung sem í því felst eða ekki?