139. löggjafarþing — 65. fundur,  26. jan. 2011.

störf þingsins.

[14:13]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði einmitt að eiga orðastað við hv. þm. Árna Þór Sigurðsson, reyndar ekki um stjórnlagaþing heldur sem formann utanríkismálanefndar.

Á dögunum var haldinn sameiginlegur fundur sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar og Evrópunefndar utanríkismálanefndar vegna rýnifunda svokallaðra sem eru haldnir núna í Brussel um landbúnaðarmál og á fundi í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd í morgun var fjallað um það undir liðnum önnur mál hvernig staðan væri í því máli.

Það er kannski rétt að vitna aðeins í greinargerð meiri hlutans í nefndaráliti um þingsályktunartillöguna sem samþykkt var árið 2009. Þar kemur fram að meiri hlutinn áréttar að til að samráð nái markmiði sínu þurfi það eiga sér stað áður en niðurstaða liggur fyrir og meðan á ferlinu stendur. Og með leyfi forseta, segir þar:

„Meiri hlutinn leggur ríka áherslu á að Alþingi komi með sem beinustum hætti að ferlinu á öllum stigum þess.“

Og enn fremur, með leyfi forseta:

„Þannig verður þess gætt að stjórnsýslan miðli upplýsingum til þingsins um málefni er tengjast viðræðunum svo að þingið geti gegnt eftirlitshlutverki sínu í ferlinu.“

Því langar mig að spyrja hv. formann utanríkismálanefndar með hvaða hætti íslenska ríkisvaldið eða samninganefndin hafi svarað spurningum frá Evrópusambandinu sem bárust milli jóla og nýárs þess efnis, með leyfi forseta, þar stóð „when and how“ eða hvenær og hvernig ætti að taka upp og aðlaga íslenskan landbúnað og regluverk hans að evrópska regluverkinu. Einnig langar mig að vita með hvaða hætti samninganefndin svarar þessum spurningum á fyrrnefndum rýnifundi erlendis.

Jafnframt hefur komið fram að tollavernd er mjög mikilvægur þáttur í landbúnaðarmálum og það hefur komið fram að utanríkismálanefnd eða aðalsamninganefndin hafi látið vinna skýrslu um tollamál. Ég hef áhuga á að vita hvort formaður utanríkismálanefndar hyggist dreifa henni til þingmanna svo við getum kynnt okkur það málefni til hlítar sem þar kemur fram.