139. löggjafarþing — 65. fundur,  26. jan. 2011.

störf þingsins.

[14:15]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni fyrir þessa fyrirspurn. Það er rétt sem hann segir, við áttum sameiginlegan fund, fulltrúar úr Evrópustarfshópi utanríkismálanefndar og sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, til undirbúnings þessum rýnifundum. Það var að mínu mati mjög gagnlegur fundur og mjög málefnalegur þar sem farið var yfir vinnu sem unnin hefur verið á vegum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins til undirbúnings þessum rýnifundum.

Hugsunin er sú, eins og kom fram í máli þingmannsins og kom fram í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar, að reyna að tryggja eins gott samráð á öllum stigum málsins og hægt er. Til þess eru þessir samráðsfundir fulltrúa úr utanríkismálanefnd með einstökum fagnefndum til að fara yfir það sem er í gangi. Þar kom upp nákvæmlega sama spurning og þingmaðurinn bar hér upp, hvernig eigi að svara akkúrat þessari spurningu. Fulltrúar ráðuneytanna upplýstu um það á fundinum að þeir mundu svara spurningunni munnlega á þann veg að ekki stæði til af hálfu Íslands að leiða í lög eða reglur Evrópusambandsins eða breyta stofnanauppbyggingu hér áður en þjóðin hefði tekið ákvörðun um það hvort hún vildi fara inn í Evrópusambandið eða ekki. Ekki yrði ráðist í slíkar breytingar fyrr en að þeirri atkvæðagreiðslu lokinni og því aðeins að niðurstaða hennar yrði jákvæð.

Í þessum töluðu orðum standa þessir rýnifundir yfir í Brussel eftir því sem ég best veit þannig að ég er auðvitað ekki til frásagnar um hvað er að gerast þar í augnablikinu en þetta er það sem lagt er upp með.

Varðandi tollverndina tek ég bara undir það, mér finnst mikilvægt að við förum sérstaklega yfir þau mál, tollamálin. Þau koma reyndar sérstaklega til skoðunar á sameiginlegum vettvangi utanríkismálanefndar með þeim þingnefndum sem um það véla og við munum gera það.

Varðandi landbúnaðarmálin vil ég segja að í mínum huga skiptir mestu máli að við skilgreinum (Forseti hringir.) hvað við viljum gera með íslenskan landbúnað, hver meginmarkmiðin eru, fæðuöryggið, matvælaöryggið, byggð í landinu, afkoma bænda o.s.frv., og (Forseti hringir.) tryggjum að þeim markmiðum verði náð í yfirstandandi viðræðum.