139. löggjafarþing — 65. fundur,  26. jan. 2011.

störf þingsins.

[14:25]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Dómur Hæstaréttar í gær fól í sér grafalvarleg tíðindi fyrir okkur. Einstæður atburður í rauninni, ekki bara hér á landi heldur einstæður atburður í lýðræðisríki. (VigH: Rétt.)

Það sem hér var á ferðinni er einfaldlega það að almennar kosningar voru dæmdar ógildar. Það getur eiginlega ekki verið alvarlegra. Hyggjum að því hvað hér er um að ræða. Kosningar eru grundvöllur þess fulltrúalýðræðis sem allir eru sammála um hér á landi. Það voru haldnar kosningar í fyrra og það kom í ljós að þær stóðust ekki, þær eru ógildar. Fólkið sem bauð sig fram og fékk kjörbréfin er ekki lengur fulltrúar á stjórnlagaþingi því að það er ekkert stjórnlagaþing til. Það eru til lög um stjórnlagaþing en það er ekkert stjórnlagaþing til. (Gripið fram í.)

Það þarf mjög mikið til og þess vegna olli það miklum vonbrigðum að hlusta á fyrstu viðbrögð stjórnvalda í þinginu í gær þar sem reynt var að gera lítið úr þessu máli. Það var sagt: Þetta tókst hér um bil, það vantaði aðeins upp á hæðina á kjörklefunum og það þurfti að læsa betur kjörkössunum o.s.frv. Þetta voru sem sagt svona hér um bil leynilegar kosningar. Eitt af því sem Hæstiréttur benti á var að þessar kosningar hefðu í raun ekki verið leynilegar samkvæmt íslenskum lögum. Þetta eru mjög alvarleg tíðindi.

Það er kallað eftir ábyrgð. Viðbragð er komið frá ríkisstjórninni og stjórnarliðum, ríkisstjórnin ber ekki ábyrgð á þessu máli, það eru einhverjir allt aðrir aðilar sem bera ábyrgð ef nokkur.

Var ekki kallað eftir ábyrgð hér eftir hrunið? Var ekki kallað eftir ábyrgð hér í umræðum þegar við fórum yfir þessi mál á sínum tíma? Vitaskuld. En ríkisstjórnin segist ekki bera neina ábyrgð og það kemur mér ekki á óvart. Ábyrgðarlaust fólk axlar aldrei ábyrgð. Kannski ætti að bæta núna inn í stjórnarskrána, úr því að menn eru að fara hér í vinnu við (Forseti hringir.) endurbætur á henni, að segja sem svo að núverandi ríkisstjórn sé eins og forsetaembættið, ábyrgðarlaust á stjórnarathöfnum. [Hlátur í þingsal.]