139. löggjafarþing — 65. fundur,  26. jan. 2011.

störf þingsins.

[14:27]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Aðeins fyrst um þessa umræðu um stjórnlagaþing. Mér finnst mjög sérkennilegt hvernig sú umræða hefur þróast, ekki síst vegna þess að stjórnvöld virðast hafa tekið þann pól í hæðina að ráðast af miklu offorsi gegn þeim sem gagnrýna hvernig framkvæmdin fór fram og lýsa ábyrgð á hendur ríkisstjórninni. Að sjálfsögðu eiga stjórnvöld að segja: Já, þetta klikkaði hjá okkur og nú skulum við anda með nefinu, finna hvaða leiðir eru í boði og vera róleg. En þvert á móti kemur hæstv. forsætisráðherra hér í ræðustól í gær, steytir hnefann framan í þingheim, verður vitlaus — afsakið orðbragðið, frú forseti — yfir því sem þingmenn hafa sagt í salnum.

Hvað segir hæstv. forsætisráðherra? Hún segir okkur að stjórnlagaþingið snúist ekki um annað en að tryggja auðlindir Íslands í stjórnarskrá. Veit hæstv. forsætisráðherra ekki að almenn sátt og samstaða er um að gera það? Á stjórnlagaþingið eingöngu að snúast um slíkt? Stjórnlagaþingið hlýtur að snúast um miklu fleiri og jafnvel stærri og merkilegri hluti en bara þennan. Um þetta er sátt, það er sátt um að skýra eignarhald þjóðarinnar, ríkisins, á auðlindum, bæði í sjó og jörðu.

Að öðru máli, frú forseti, því sem kom fram áðan vegna spurningar frá hv. þm. Sigurði Ingi Jóhannssyni, spurningar sem þurfti að svara vegna fyrirspurna Evrópusambandsins. Nú vitum við að hluta þeirra var svarað munnlega. Spurningum um landbúnaðarkaflann var svarað munnlega ef ég hef skilið þetta rétt. (Gripið fram í: Öllum.) Það er svolítið merkilegt (Gripið fram í: … spurningar.) að þeim skuli vera svarað munnlega. Er það vegna þess að ráðherrar ríkisstjórnarinnar komu sér ekki saman um hvað ætti að standa í svörunum? (Gripið fram í: Átti …?) Er það vegna þess að svörin sem voru lögð fyrst fram þóttu ekki nógu góð? Hvers vegna er þessu svarað munnlega?

Ég held að við þurfum að fara mjög vandlega yfir þetta mál og skoða það nákvæmlega því að það er vitanlega óásættanlegt að vera með einhverja hentistefnu í svörum varðandi þetta stóra og mikla mál.