139. löggjafarþing — 65. fundur,  26. jan. 2011.

hlutafélög.

176. mál
[16:00]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður kom inn á í lok svars síns að fjárfesting á síðasta ári, árið 2010, er sú minnsta í sögu lýðveldisins. Ástandið er orðið þannig í kringum fjárfestingar að upp er kominn vítahringur eða spírall eins og hv. þingmaður segir, þ.e. einstaklingurinn leggur peninginn inn í banka en það er ekkert atvinnulíf sem bankinn getur látið fjárfesta og ávaxta fyrir sig peninginn þannig að bankinn lætur peninginn inn í Seðlabankann til að fá vaxtamuninn svo hann geti borgað innstæðueigandanum. Síðan kemur ríkissjóður og greiðir inn í Seðlabankann og til að geta gert það verður hann að hækka skattana á einstaklinginn sem lagði inn peninginn. Það er því mjög mikilvægt, og ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um það, að þennan spíral verður að rjúfa. Við verðum að fá fjárfestingar í gang. Öðruvísi náum við ekki efnahagslífinu í gang aftur, annars þýðir þetta, eins og hv. þingmaður segir, enn frekari stöðnun.

Hv. þingmaður kom reyndar inn á það í ræðu sinni að þetta væri eitt af því sem gæti gefið mönnum trú á því að fara í fjárfestingar og kaupa hlutabréf, að koma efnahagslífinu í gang.

Vegna alþjóðasamskipta valda matsfyrirtækin og stóru bankarnir mér nokkurri umhugsun og það kom líka fram í ræðu hv. þingmanns. Hann sagði að annmarkarnir við gegnsæ hlutafélög væru hugsanlega þeir að menn gætu ekki fjárfest milli landa. Mig langar að spyrja hv. þingmann um skoðun hans á því. Telur hann ekki að matsfyrirtækin og sérstaklega stóru erlendu bankarnir hafi brennt sig nóg á hruninu sem varð á alþjóðafjármálamarkaðnum, þó það hafi verið sýnu verst hér þar sem allt hrundi? Hvað þarf eiginlega til að vekja þá upp af svefni þeirra, gagnvart þessari veilu í hlutafélagaforminu?