139. löggjafarþing — 65. fundur,  26. jan. 2011.

skipun starfshóps um ofbeldi maka gegn konum frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins.

211. mál
[16:05]
Horfa

Flm. (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um að skipaður verði starfshópur sem fjallar um ofbeldi maka gegn konum frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins. Með mér flytja 30 hv. þingmenn úr öllum flokkum á hinu háa Alþingi tillöguna.

Í tillögugreininni segir að Alþingi álykti að fela ríkisstjórn Íslands að skipa starfshóp um ofbeldi maka gegn konum sem koma frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins. Hópurinn verði skipaður einum fulltrúa dómsmála- og mannréttindaráðherra, einum fulltrúa félags- og tryggingamálaráðherra, sem nú er velferðarráðherra, einum fulltrúa tilnefndum af Samtökum um Kvennaathvarf og einum fulltrúa tilnefndum af Útlendingastofnun. Hlutverk hópsins verði að skila dómsmála- og mannréttindaráðherra, nú innanríkisráðherra, fullmótuðum tillögum um úrbætur og hugsanlegar laga- eða reglugerðarbreytingar. Markmiðið með úrbótum verði fyrst og fremst að bæta réttarstöðu þeirra kvenna sem koma frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins og eru háðar ofbeldisfullum mökum um landvist á Íslandi. Telji starfshópurinn rökrétt að hluti vinnunnar nái til stöðu allra erlendra kvenna sem beittar eru ofbeldi af mökum sínum skulu tillögurnar miða að því. Hópurinn skili niðurstöðum þrem mánuðum frá dagsetningu skipunarbréfs.

Tillagan var fyrst flutt á síðasta þingi, 138. löggjafarþingi, af varaþingkonu Samfylkingarinnar, Önnu Pálu Sverrisdóttur. Hún á allan heiðurinn af tillöguflutningnum af undirbúningi tillögunnar og rannsóknum tengdum henni og flutti hana á liðnu þingi. Því miður náðist ekki að afgreiða málið þá. Ég flyt málið með hennar leyfi og fyrir hennar hönd, forseti, en bendi einnig á að það nýtur greinilega stuðnings í öllum þingflokkum. Ég á von á því að það hljóti afgreiðslu hér á 139. löggjafarþinginu.

Í greinargerð segir frá skýrslu sem Kvennaathvarfið kynnti 2. desember árið 2009 um rannsókn sem unnin var á aðstæðum og upplifun kvenna af erlendum uppruna sem leita í Kvennaathvarfið. Meðal þess sem rannsóknin leiddi í ljós var skelfileg staða kvenna frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins sem hafa verið beittar ofbeldi af mökum sínum og eru háðar mökum sínum um landvist hér á landi.

Vert er að taka fram að um fámennan hóp í íslensku samfélagi er að ræða eins og segir í skýrslunni þar sem aðeins lítill hópur kvenna af erlendum uppruna leitar í Kvennaathvarfið vegna ofbeldis af hendi maka.

Rannsókn Kvennaathvarfsins náði til allra kvenna af erlendum uppruna sem þangað komu. Hér er hins vegar tekinn til umfjöllunar sá hópur sem kemur frá löndum sem tilheyra ekki Evrópska efnahagssvæðinu en rannsóknin sýndi mikinn mun á stöðu þeirra og kvenna sem koma frá löndum innan EES-svæðisins. Þær síðarnefndu eru mun betur settar vegna reglna um frjálst flæði vinnuafls innan svæðisins. Í því liggur grundvallarmunurinn á aðstöðu kvennanna hvort þær koma frá löndum innan EES þar sem gilda reglur um frjálst flæði fólks, eða hvort þær koma frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins. Ég vitna í orð Hildar Guðmundsdóttur, mannfræðings og vaktstýru Kvennaathvarfsins, sem gerði rannsóknina, með leyfi forseta:

„Í sumum tilvikum eru konur frá löndum utan EES háðar maka varðandi dvalarleyfi í landinu, sem gerir þær berskjaldaðri fyrir ofbeldi eiginmanna sinna. Ókunnugleiki og tungumálaerfiðleikar auðvelda misnotkun og geta stuðlað að einangrun. Vitað er til þess að fleiri en ein erlend kona hefur komið vegna sama manns og svo virðist sem einstaka ofbeldismenn velji kerfisbundið konur frá löndum utan EES og telji þær auðveldari fórnarlömb ofbeldis vegna stöðu þeirra í íslensku samfélagi.“

Í skýrslu Kvennaathvarfsins eru nefnd ýmis dæmi um það ofbeldi og misnotkun sem konurnar eru beittar. Sumir karlar halda konum einangruðum á heimilum sínum og leyfa þeim ekki að eiga samskipti við annað fólk. Til dæmis kom ein kvennanna í Kvennaathvarfið og vissi ekki sitt eigið heimilisfang þrátt fyrir að hafa búið hérlendis í nokkur ár en henni hafði verið haldið einangraðri á heimili sínu. Meiri hluti kvennanna hefur orðið fyrir líkamlegu ofbeldi og sumar fyrir ýmiss konar kynferðisofbeldi en um það segir í skýrslunni:

„Af frásögn kvennanna má ráða að karlarnir telji að konurnar séu eign þeirra og þeir geti leyft sér að koma fram við þær eins og þeim sýnist og að þeir eigi rétt á að fá öllum kynferðislegum hugarórum sínum fullnægt. Eiginmennirnir hóta konunum óspart „heimsendingu“ ef þær neita að hlýða.“

Sumar kvennanna eru beittar fjárhagslegri misnotkun af ýmsu tagi, látnar þræla sér út í láglaunavinnu til að sjá fyrir makanum, látnar skrifa undir fjárhagslegar skuldbindingar fyrir þá eða vinna launalaust fyrir þá. Þær eru niðurlægðar af mökum sínum á marga vegu og þeim til dæmis sagt að þær séu keyptar. Makarnir ljúga til um hagi sína og bakgrunn og villa á sér heimildir meðan á viðkynningu stendur.

Samkvæmt upplýsingum frá rannsakanda koma sumar kvennanna endurtekið í Kvennaathvarfið en fara aftur til maka síns þar á milli, gjarnan með því hugarfari að þær verði einfaldlega að láta ofbeldið yfir sig ganga í nokkur ár meðan þær eru háðar makanum um landvist. Þetta gera þær fyrir börnin sín eða vegna þess að þær eiga ekki afturkvæmt á heimaslóðir.

Rétt er að taka fram að í 6. mgr. 13. gr. laga um útlendinga, nr. 96/2002, sem breytt var með lögum nr. 86/2008, er að finna ákvæði sem sérstaklega var ætlað að koma til móts við þann hóp kvenna sem tillaga þessi fjallar um. Ákvæðið hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Ef hjúskap, staðfestri samvist eða sambúð er slitið vegna þess að útlendingur eða barn hans hefur sætt misnotkun eða ofbeldi í sambandinu er, þegar sérstaklega stendur á og ríkar sanngirnisástæður mæla með, jafnframt heimilt að endurnýja dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu þrátt fyrir breyttar forsendur dvalar hér á landi að uppfylltum skilyrðum 1. mgr. 11. gr. Skal þá m.a. litið til lengdar hjúskapar, staðfestrar samvistar eða sambúðar og tengsla útlendings við landið.“

Ljóst virðist að þetta ákvæði hafi haft í för með sér formlega réttarbót. Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun hefur hins vegar lítið sem ekkert reynt á það. Af þeirri staðreynd má draga þá ályktun að meira þurfi til að koma, svo sem fræðsla um réttindi. Flutningsmenn taka ekki afstöðu til þess hvort ákvæðið veiti efnislega fullnægjandi vernd og er starfshópnum falið að fara yfir það atriði. Eins er hópnum falið að hafa skýrslu Kvennaathvarfsins til hliðsjónar við vinnu sína en hann hefur að öðru leyti frjálsar hendur um vinnulag sitt.

Eins og fyrr segir er hlutverk hópsins að skila fullmótuðum tillögum um úrbætur og hugsanlegar laga- og reglugerðarbreytingar. Markmiðið með þeim úrbótum er að bæta réttarstöðu þeirra kvenna sem koma frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins og eru háðar ofbeldisfullum mökum um landvist á Íslandi.

Flutningsmenn leggja áherslu á að árangur í málinu náist hið fyrsta. Því er lagt til að hópurinn hafi þrjá mánuði til að skila tillögum sínum um þetta afmarkaða verkefni. Flutningsmönnum finnst þó eðlilegt að setja starfshópnum ekki stólinn fyrir dyrnar ef hluti vinnunnar getur nýst í þágu kvenna frá löndum innan Evrópska efnahagssvæðisins þótt aðstaða þeirra að lögum sé gjörólík. Starfshópnum er því falið að meta hvort rökrétt sé að hluti vinnunnar nái til stöðu allra erlendra kvenna sem beittar eru ofbeldi af mökum sínum og skulu þá tillögurnar taka mið af því.

Samsetning hópsins er þannig hugsuð að þekking á aðstæðum kvennanna og framkvæmd útlendingalöggjafar fáist með fulltrúum frá Kvennaathvarfi og Útlendingastofnun. Innanríkisráðuneytið og velferðarráðuneytið skipi svo hvor sinn fulltrúa en nokkur skörun er á verksviði ráðuneytanna er varðar málefni útlendinga. Ráðherrarnir ákveði sín á milli hvor fulltrúa þeirra verði formaður starfshópsins.

Vernd kvenna gegn ofbeldi maka snertir grunninn að tilveru þeirra og öryggi og að tilveru og öryggi barna þeirra Ef veruleikinn er sá að ofbeldismenn hérlendis velja konur frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins vegna lakari stöðu þeirra í íslensku samfélagi þurfa íslensk stjórnvöld að bregðast hratt og vel við. Styrkja þarf réttarstöðu þessara kvenna svo að þær eigi greiða leið út úr ofbeldissamböndum. Þannig ættu einnig að nást fram fyrirbyggjandi áhrif með skýrum skilaboðum um að þess háttar ofbeldi og misnotkun á konum verður undir engum kringumstæðum liðin hér á landi.

Ég vil að lokum taka það fram, frú forseti, að ég geri ráð fyrir að þessari tillögu verði vísað til hv. allsherjarnefndar til umfjöllunar og geri mér góðar vonir um að hún verði afgreidd á yfirstandandi löggjafarþingi.