139. löggjafarþing — 65. fundur,  26. jan. 2011.

tekjuskattur.

275. mál
[17:34]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Afskaplega leiðist mér þegar menn tala svona niður til mín. Það getur vel verið að ég sé reynslulaus og vitlaus en menn þurfa ekki að segja það. (Gripið fram í.) Mér finnst ómerkilegt að tala niður til manna. Það vill nefnilega til að ég veit dálítið um hlutaskipti á sjó sem hafa verið frá fornu fari á Íslandi. En þeim hefur verið breytt, það er nefnilega hægt að breyta því.

Einu sinni var tekið upp olíugjald þar sem útgerðin fékk fyrir olíuna sérstaklega utan hlutaskipta. Það er búið að setja ýmislegt utan hlutaskipta í kjarasamningum. Hv. þingmanni hlýtur að vera kunnugt um það eða hvað? Nú ætla ég ekki að tala niður til hans en honum hlýtur að vera kunnugt um það. Og þá geta menn að sjálfsögðu sett þessa hluti utan hlutaskipta. Þetta er spurningin um að menn beiti hugkvæmni, hugsi út úr boxinu og reyni að finna lausn sem passar inn í kerfið sem heitir dagpeningar, þá komum við því kerfi á. Ef báðir aðilar hagnast á því að ríkisskattstjóri greiði dagpeninga eða leyfi þá skattfrjálsa þá er þetta besta mál og allir jafnsettir. Þá þarf sjómaðurinn ekkert að afsaka það í fermingarveislunni við vin sinn sem er verkfræðingur og fær aldrei dagpeninga, hann er í landi en samt fjarri heimilis sínu af því að hann keyrir upp í virkjanir. Hann er líka fjarri heimili sínu og fær ekki dagpeninga, ekki sjómannaafslátt og ekki verkfræðingaafslátt.

Þá þarf sjómaðurinn ekki að afsaka að hann fái ölmusu frá ríkinu sem heiti sjómannaafsláttur og rífast um það. Hann er jafnsettur og allir aðrir. Hann fær dagpeninga eins og verkfræðingurinn þegar hann fer út á land eða fer burtu frá heimili sínu. Þá eru allir ánægðir og jafnsettir. Því vil ég stefna að.