139. löggjafarþing — 65. fundur,  26. jan. 2011.

réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

311. mál
[18:31]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta og yfirgripsmikla ræðu. Hún fór í gegnum forsöguna og það var allt eins og ég mundi. Átökin um þetta mál í efnahags- og skattanefnd voru þekkt og þar var einn maður sem stöðvaði málið í hv. efnahags- og skattanefnd, þingmaður sem var ýmist í stjórn eða stjórnarandstöðu en hann var stjórnarliði opinberlega.

Ég ætla að mótmæla því sem hv. þingmaður sagði um að hún efaðist um að þessir hæstv. ráðherrar, núverandi og þáverandi hv. þingmenn, mundu standa í vegi fyrir þessu. Nú er það þannig að menn virðast vera afskaplega sveigjanlegir þegar þeir komast í ráðherrastóla og sérstaklega eru Vinstri grænir mjög sveigjanlegir, þeir eru búnir að gleyma heitingum sínum í kosningabaráttunni um Icesave, AGS, Evrópusambandið o.s.frv. Samfylkingin hefur gleymt öllu varðandi samráð, gegnsæi og verkstjórn og allt þetta. Nú er ekkert samráð haft og lítið sem ekkert gegnsæi í öllum aðgerðum o.s.frv., þannig að ég deili ekki þessari svartsýni og vonast til þess að menn láti skynsemina ráða, því að yfirmenn stofnana kvarta undan því að þeir geti í rauninni ekki rekið þær skynsamlega. Nú ríður svo mikið á að menn reki stofnanir einmitt skynsamlega svo að niðurskurðurinn þurfi ekki að vera eins harkalegur og eins bitur og hann er ella, skattahækkanir og bensínhækkanir þurfi ekki að vera eins miklar og allt saman sem almenningur er að kvarta undan þurfi ekki að vera eins harkalegt.

Ég er nærri viss um að skynsemin mun taka ráðin hjá hæstv. ráðherrum og þeir munu taka þessu frumkvæði fagnandi.