139. löggjafarþing — 65. fundur,  26. jan. 2011.

réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

311. mál
[18:33]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég get alveg tekið undir með hv. þingmanni, ég vonast til þess eins og hann að skynsemin muni ráða. En ég verð að segja eftir allar þær uppákomur og allan þann vandræðagang sem er í ríkisstjórninni er ég ekki endilega bjartsýn.

Það er alveg rétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni, ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir hafa verið að gefa afslátt af hinu og þessu sem þeir höfðu sett fram í stefnu sína en þær breytingar hafa ekki endilega alltaf verið mjög skynsamlegar. Ég efast hins vegar um það að hæstv. fjármálaráðherra, því að hann hefur ekki komið að þessu máli með eins afgerandi hætti og þeir ráðherrar sem ég talaði um áðan — ég vonast til þess í ljósi þess bréfs sem fjármálaráðuneytið ritaði að fjármálaráðuneytið fari af stað með breytingar á frumvarpinu. Ég er hins vegar ekki sannfærð um það að fjármálaráðherra fái til þess stuðning af hálfu samráðherra sinna. Hvort ég verð forspá eða ekki, við skulum bara bíða og sjá, en ég væri alveg til í að taka þessa umræðu aftur við hv. þingmann við lok þessa vorþings þegar kemur í ljós hvort afgreiðsla málsins fái framgang eða ekki.

Það verður að segjast eins og er, þó að ég reyni alltaf að sjá björtu hliðarnar í lífinu, að í þessu máli er ég ekki bjartsýn á að ríkisstjórnin veiti þessu stuðning. Þess vegna lagði ég ríka áherslu á það í máli mínu að Alþingi, í ljósi að mínu mati aukinnar og loksins meiri ábyrgðar þingsins á ýmsum þáttum, sjái þá til þess að menn hafi þessar stoðir í lögum og löggjafarvaldi þannig að við getum veitt forstöðumönnum ríkisstofnana aðhaldið og þau tæki sem þeir eru að fara fram á.