139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

íslenskur landbúnaður og ESB.

[10:51]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Á upplýsingafundinum sem var ágætur kom m.a. fram um það efni sem við erum að spyrja ítrekað um að nokkuð óljóst væri hvernig með yrði farið, hvernig svarað yrði spurningum um hvenær og hvernig Ísland ætlaði að taka upp hið evrópska regluverk í landbúnaði. Þess vegna er mjög mikilvægt á síðasta degi rýnifundanna að við fáum að vita hvað verið er að tala um. Það var um það trúnaður þangað til búið yrði að tala um það við samninganefndina í Brussel og við það höfum við staðið.

Varðandi skýrsluna um tollvernd höfum við upplýsingar um að hún hafi verið unnin í nóvember en að ekki eigi að vinna hana á næstunni. Það er mjög mikilvægt að við fáum þær upplýsingar. Það er líka rétt að það er ekkert mál að kalla eftir upplýsingum og fá nýja fundi til að fá þessar upplýsingar fram og það munum við án efa gera.

En staðreyndin er auðvitað sú að Evrópuganga hæstv. utanríkisráðherra haltrar og gott betur en það. Hún skjögrar á milli þeirra sem eru þjóðernissósíalistar (Forseti hringir.) og hinna, hægri kratanna, hefðbundnu kratanna sem vilja fara með okkur öll inn í Brussel. Þetta gengur (Forseti hringir.) ekki lengur. Við eigum að gera eitthvað skynsamlegra en að eyða tíma okkar og peningum í þetta.