139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

tilraun til njósna.

[10:54]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Fyrir stuttu kom upp svokallað tölvumál í þinginu þar sem fyrir liggur að reynt var að brjótast inn í tölvukerfi Alþingis. Í sjálfu sér liggur ekki fyrir hvaða afleiðingar það hefur haft. Mér finnst ásamt mörgum öðrum hafa verið fjallað um þetta mál af mikilli léttúð í þinginu og í málflutningi hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur og Marðar Árnasonar kom m.a. fram að þeim fyndist þetta bara stormur í vatnsglasi og að hér væri verið að gera stórmál úr litlu. Hér voru þingmenn vændir um ódrengilega framkomu og mér þótti mjög miður hvernig þessi umræða þróaðist af hálfu ákveðinna þingmanna.

Maður veltir vissulega fyrir sér hvaða pólitík er í svona máli sem ætti að vera hafið yfir alla pólitík og hvernig þessir sömu hv. þingmenn hefðu tekið til máls ef forseti þingsins hefði heitið Halldór Blöndal og dómsmálaráðherrann verið Björn Bjarnason. (Gripið fram í.)

Það var áhugavert að heyra frá hæstv. forseta þingsins að rannsókninni væri lokið á sama tíma og lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu kemur í fjölmiðla og segir að rannsókn sé engan veginn lokið, hún sé enn í gangi og málinu alls ekki lokið af þeirra hálfu. Maður áttar sig ekki alveg á því hvernig upplýsingastreymið hefur verið á milli forseta þingsins og lögreglunnar. Á sama tíma er síðan af hálfu ákveðinna aðila starfsmönnum þingsins kennt um það að málinu hafi verið haldið leyndu fyrir þingmönnum.

Það kom fram hjá hæstv. forseta þingsins að forsætisráðherra hefði verið með í þeirri ákvörðun að leyna þingmenn þessu máli, að gefa þingmönnum ekki upplýsingar um þetta alvarlega mál. Ég ber það undir hæstv. forsætisráðherra hvort hún hafi verið með í þessari ákvörðun, hvort henni finnist málið hafa verið meðhöndlað eðlilega í ljósi umræðu um upplýsta starfsemi og annan fagurgala um aukið (Forseti hringir.) lýðræði þessa samfélags.