139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

Landeyjahöfn.

[11:02]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég hef fylgst vel með gangi mála í Landeyjahöfn og geri mér grein fyrir mikilvægi þess að halda traustum samgöngum á milli Vestmannaeyja og lands, hef átt viðræður við fulltrúa Siglingastofnunar og þá aðila sem koma að þessum málum.

Það er rétt sem fram kemur í máli hv. þingmanns að gripið hefur verið til margvíslegra aðgerða til að tryggja að höfninni verði haldið opinni. Það varð ófyrirsjáanlegur dráttur á framkvæmdum vegna þess að skipið sem átti að koma til sandmokstursins var sett í slipp og þurfti viðgerða við þannig að það varð dráttur á því en við höfum reynt að hraða þessum framkvæmdum eins og kostur er.

Við spurningum hv. þingmanns mun ég afla mér nánari upplýsinga og gera þinginu grein fyrir þeim eins og hér hefur verið óskað eftir. En ég var ekki undirbúinn undir þessa fyrirspurn núna og hefði ég haft ráðrúm til þess hefði ég haft ítarlegri svör fram að færa en ég þakka fyrir fyrirspurnina.