139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla innanríkisráðherra.

[11:36]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Mig langar til að nota seinna andsvar mitt til að mótmæla því sem fram kom í ræðu ráðherrans, að dómsmálaráðuneytið hefði staðið sig sérstaklega vel í kynningu frambjóðenda. Mér fannst vefurinn kosning.is ágætur og gott hvernig hægt var að veiða menn þar af listum og raða upp, en aðrar upplýsingar fannst mér ekki nægilegar. Mér fannst þær spurningar sem frambjóðendum var gert að svara — mér fannst þeir ekki spurðir að því sem skiptir máli, t.d. um hagsmunatengsl og/eða afstöðu til ákveðinna þátta stjórnarskrárinnar. Þar stóðu aðrir miðlar sig mun betur en ráðuneytið, t.d. svipan.is og dv.is. Mig langar að hvetja til þess ef við endurtökum þessa kosningu að ráðuneytið standi betur að kynningu, bæði á frambjóðendum og þinginu sjálfu og til hvers það er.