139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla innanríkisráðherra.

[13:02]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér úrskurð Hæstaréttar um að kosningin til stjórnlagaþings hafi verið dæmd ógild. Ég er þeirrar skoðunar að það sé mjög alvarlegt mál að kosning í lýðræðisríki sé dæmd ógild af æðsta dómstól þjóðarinnar. Það þarf náttúrlega að endurskoða þá framkvæmd alla og finna út hvað fór úrskeiðis.

Stjórnlagaþingið sjálft var og er mjög merkilegt fyrirbæri. Það er nýmæli við gerð stjórnarskráa og vakið hefur heimsathygli. Það var haft mjög víðtækt samráð um lögin um stjórnlagaþingið. Í því samráði tóku m.a. þátt frá upphafi fulltrúar Sjálfstæðisflokksins þó að stjórnlagaþing hafi ekki verið á stefnuskrá flokksins og það ber að meta. Framlag þeirra og gagnrýni sem var oft viðhöfð var til mikilla bóta fyrir málið og það er vel. Ég leyfi mér hins vegar að benda á að í stefnuskrám allra hinna flokkanna, líka Framsóknarflokksins, var stjórnlagaþing á dagskrá. Ef Framsóknarflokkurinn og formaður hans ætla eitthvað að draga í land með það þurfa framsóknarmenn væntanlega að halda landsþing fljótlega til að breyta stefnu flokksins.

Ég er ekki sammála úrskurði Hæstaréttar í þessu máli þó að eftir honum verði að sjálfsögðu að fara. Ég las ákvörðun hans mjög rækilega og tel, miðað við það sem kemur þar fram, að ekki hafi verið tilefni til að ógilda kosninguna. (Gripið fram í.) Það er vísað í lög um kosningar til Alþingis í þessum úrskurði en það virðist einfaldlega gert eftir hentugleika því að í kosningum um lög til Alþingis segir að kosningar eigi ekki að ógilda nema sýnt sé fram á að misbresturinn í framkvæmdinni hafi haft áhrif á úrskurð kosninganna. Það hefur ekki verið gert í þessu efni. Það er ekkert sem bendir til þess að misbresturinn á framkvæmd hafi haft áhrif á úrslit kosninganna.

Að því leytinu til og í fleiri atriðum sem koma fram í niðurstöðu Hæstaréttar finnst mér niðurstaðan langsótt. Rekjanleiki kjörseðla er teóretískt dæmi um hugsanlegt samsæri sem mjög ólíklegt væri að gæti nokkurn tímann gengið upp en samt er hann notaður sem ein ástæða.

Lengi hefur verið höfð uppi gagnrýni úti í samfélaginu og víðar á það hvernig skipað er í stöður dómara á Íslandi, þar á meðal hæstaréttardómara. Mikil umræða er um það meðal almennings utan veggja þinghússins að þetta sé pólitísk niðurstaða pólitískt skipaðs Hæstaréttar. Það að sú umræða skuli vera til staðar er mjög vont. Ég heyri í fólki sem er með ugg í brjósti um að verði hér haldið annað stjórnlagaþing muni Hæstiréttur einfaldlega lýsa kosninguna til þess líka ógilda. Þessi uggur hjá fólki á rætur sínar að rekja til þess að okkur hefur ekki tekist með óyggjandi hætti að skipa hér í stöður dómara eins og gert er í öðrum siðmenntuðum réttarríkjum. Ég skal ekki segja um þann Hæstarétt sem situr núna, en trúverðugleiki er tvenns konar; trúverðugleiki í raun og trúverðugleiki í ásýnd. Trúverðugleikinn í ásýnd skiptir máli og hjá fjölda fólks er Hæstiréttur Íslands ekki með trúverðuga ásýnd. Það er mjög vont, það er óþolandi ástand og ekki við það búandi ef Ísland á að teljast áfram réttarríki.

Hér voru gerðar breytingar á lögum um skipan dómara fyrir jól. Þær gengu ekki nógu langt. Þær hafa enn þá opið fyrir þann glugga að ráðherra geti skipað dómara með einföldum stuðningi einfalds meiri hluta Alþingis ef hann gengur gegn tillögum nefndar sem á að leggja til hverjir verða dómarar. Þannig að hér þarf að verða bragarbót á, en það er kannski seinni tíma mál.

Mig langar að víkja aðeins að stjórnlagaþinginu. Það er á stefnuskrá fjögurra flokka af fimm sem nú eiga fulltrúa á Alþingi. Þingmenn voru kosnir út á þær stefnuskrár. Vissulega er hefð fyrir því á Alþingi að fylgja ekki stefnuskrám um leið og menn eru komnir inn. Ég mun reyna að halda þingmönnum við efnið í þessu sambandi. Það þarf að endurskrifa stjórnarskrá lýðveldisins og það þarf að gera það öðruvísi en svo að þingmenn einir sinni þeirri vinnu. Það hefur ekki tekist hingað til, og eins og greinilega hefur komið fram í þingsal í dag og undanfarna daga og vikur mun það að öllum líkindum ekki takast í framtíðinni.

Hvað er þá til ráða? Það má lagfæra núverandi lög. Það má breyta dagsetningu kosninganna og halda þær aftur, það er einfaldasta leiðin. Það eru ýmsir ágallar á lögunum um stjórnlagaþingið að mínu mati, sérstaklega um starfshætti þess og hvernig skipað er í nefndir stjórnlagaþingsins. Það er mjög miðstýrt í starfsháttum sínum, það eru þrjár nefndir þriggja manna og forseti stjórnlagaþingsins hefur mjög mikil völd samkvæmt lögunum. Það virðist líka álitamál hjá mörgum, þó að það komi skýrt fram í lögunum að mínu mati, hvort stjórnlagaþingið sjálft geti vísað sínum eigin niðurstöðum til þjóðaratkvæðagreiðslu áður en Alþingi fær þær til meðferðar. Það er meðal þessara grundvallaratriða.

Burt séð frá því þurfum við að halda áfram með þetta ferli og ég tel það forgangsmál. Það má ekki láta það dankast fram á haustþingið eða fram á næsta vorþing. Það þarf ekki að taka langan tíma. Allsherjarnefnd eyddi mjög miklum tíma í að taka tillit til ýmissa sjónarmiða, sérstaklega Sjálfstæðisflokksins. Eins og fram hefur komið styður Sjálfstæðisflokkurinn ekki þessa hugmynd lengur og þá þarf ekkert að velta því neitt sérstaklega mikið meira fyrir sér. Við fáum vonandi efnislega gagnrýni frá sjálfstæðismönnum, en við þurfum ekki að elta ólar lengur við hana þar sem berlega hefur komið í ljós að þeir styðja ekki málið.

Almenningur, þjóðin, veit hvað gerðist hér í hruninu og veit hvað er að. Það er einfaldlega eðlilegt og sjálfsagt eftir svona hrun að almenningur fái að koma að því sjálfur að skrifa lýðveldinu nýja stjórnarskrá og að Alþingi fylgi henni svo úr hlaði í samræmi við stjórnskipanina. Ég vona svo sannarlega að það taki ekki langan tíma og það verði ekki mikil bið á því. Það er óþarfi að hlaupa hér í felur og sýna eitthvert kjarkleysi í þessu máli. Það þarf einfaldlega að bretta upp ermarnar og taka til við að koma þessu af stað aftur. (BirgJ: Heyr, heyr.)