139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

framkvæmd kosningar til stjórnlagaþings, munnleg skýrsla innanríkisráðherra.

[15:18]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Það er náttúrlega með ólíkindum að hæstv. ríkisstjórn hafi fallið á tiltölulega skömmum tíma í tveimur útskriftarprófum. Hún féll á framgangi fyrri Icesave-samningsins, kolféll fyrir þjóðinni, og hún féll í framsetningu og framkvæmd kosninga til stjórnlagaþings. Það er ekki til slíkt fordæmi, hvorki í Afríku, Suður-Ameríku né í þeim löndum sem styst eru komin í því verklagi sem snertir lýðræði. Þar sláum við enn eitt heimsmetið.

Hér á Alþingi, virðulegi forseti, kom hugmynd um að menn ynnu saman, reyndu að gera gott úr hlutunum. Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson impraði til að mynda á því fyrr í dag að menn sneru vörn í sókn og tækju faglega á þessum hlutum og tækju til starfa innan þingsins, allir saman á einum báti. Sama gerði hv. þm. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. Þetta er auðvitað útrétt hönd til að leiða mál til lykta og reyna að gera gott úr því sem hefur farið úrskeiðis. Ef t.d. þingnefnd skipuð þingmönnum úr öllum flokkum tæki til starfa með ákveðinn verktíma, sem gæti þess vegna miðast við einhverja mánuði þó að ég telji enga þörf á slíku, til að gera eðlilegar og marktækar breytingar á stjórnarskránni, það þarf ekki að breyta nema kannski 15, 20 setningum eða lagfæra, og koma inn auðlindaákvæðinu nr. 1, 2 og 3, þó ekki sé nema til varnar sjálfstæði Íslands um aldur og ævi. Ef þetta væri gert með stofnun þingmannanefndar, eins og hv. formenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafa lagt til, með þátttöku ráðgjafahóps stjórnsýslufræðinga, hvort sem þeir yrðu fimm eða sjö, sem gerst þekkja til í stjórnkerfum landsins og 25-menninganna sem hafa verið kosnir, en hægt væri að skipa þá sem ráðgjafa án þess að snerta við eða lítillækka dóm Hæstaréttar, þá væri hægt að vinna þessu máli framgang og klára það. Þá komast öll sjónarmið að og faglega er staðið að verki. Þetta er náttúrlega það sem ríkisstjórnin ætti að hafa burði til að gera án þess (Forseti hringir.) að hugsa sig lengi um.